Skógarhöggsmenn hvíla lúin bein eftir átökin á Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi. Íslandsmeistarin…
Skógarhöggsmenn hvíla lúin bein eftir átökin á Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi. Íslandsmeistarinn Lárus Heiðarsson lengst til vinstri. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Skógardagurinn mikli vel heppnaður

Skógardagurinn mikli 2015 var haldinn í einmuna blíðu í Hallormsstaðaskógi laugardaginn 20. júní. Þetta var langbesti sumardagurinn sem komið hefur á Héraði þetta sumarið og aðsóknin eftir því. Fjöldi manns naut veðurblíðunnar og þeirra viðburða sem á dagskránni voru. Lárus Heiðarsson varð Íslandsmeistari í skógarhöggi í sjötta sinn.

Íslandsmeistaramótið í skógarhöggi er einn aðalviðburður Skógardagsins mikla á hverju ári og hefur sannarlega fest sig í sessi. Keppnin var spennandi og skemmtileg í ár eins og ávallt áður en skógarbóndinn og skógræktarráðunauturinn Lárus Heiðarsson á Droplaugarstöðum bar sigur úr býtum að þessu sinni. Þetta var í sjötta sinn sem Lárus hampaði Íslandsmeistaratitlinum og greinilegt að hann heldur sér vel við í greininni. Í öðru sæti varð Ólafur Árni Mikaelsson og Hörður Guðmundsson í því þriðja. Verðlaunin í keppninni voru Husqvarna-vörur frá umboðinu MHG.

Sigurvegararnir í skógarhlaupinu. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir..">

Í karlaflokki skógarhlaupsins komst Hjalti Þórhallsson fyrstur í mark á tímanum 1.05.10 en í kvennaflokki sigraði Hjálmdís Zoëga á 1.10.50. Í öðru sæti urðu Jón Jónsson og Guðrún Helga Tryggvadóttir og í því þriðja Magnús Guðmundsson og Sigurlaug Helgadóttir. Þess má geta að sigurvegarinn í karlaflokki, Hjalti Þórhallsson, er skógarhöggsmaður á Hallormsstað. Skógarmenn stóðu því sannarlega fyrir sínu á Skógardeginum mikla 2015.

Þá var þessi dagur líka innblástur hagyrðingum. Philip Vogler á Egilsstöðum orti eftirfarandi vísur:

Sólin minnkar morgundögg.
Mannfólk streymir að
í tónlist, skokk og skógarhögg
í skjóli á Hallormsstað.

Í hita víða er húðin ber,
hylja greni og björk.
Skiptir engu að skemmtir sér,
í skýjum fólk í Mörk.

Texti: Pétur Halldórsson