Rætt við Skúla Björnsson í Bændablaðinu

Gróðrarstöðin Barri á Fljótsdalshéraði er nú með samninga um framleiðslu á tæplega 1.400 þúsund skógarplöntum á ári. Skúli Björnsson framkvæmdastjóri telur að nú sé að rofa til í skógrækt á Íslandi eftir samdráttarskeið og lítur björtum augum fram á veginn. Rætt er við Skúla í Bændablaðinu sem kom út fyrir helgi.

Fram kemur í viðtalinu að árið 2008 hafi Barri framleitt rúmlega 2,8 milljónir skógarplantna en með þeim samdrætti sem varð á framlögum ríkisins til skógræktar hafi framleiðslan farið niður í tæplega 400 þúsund plöntur. Áföll urðu í rekstrinum vegna mikillar fjárfestingar en fyrir tveimur árum var stofnað nýtt félag sem nú rekur stöðina, aðallega til framleiðslu skógarplantna fyrir Landgræðsluskóga, Héraðs- og Austurlandsskóga, Suðurlandsskóga, Vesturlandsskóga, Skjólskóga, Skógrækt ríkisins og fleiri.

Skúli telur í viðtalinu að nú sé að rofa til í skógræktinni hér á landi og vísar til orða ráðamanna í þeim efnum. Því sé bjartsýni ríkjandi og Barri horfi líka til annarra verkefna, meðal annars þeirra möguleika sem felist í grænmetisrækt.