Settar hafa verið upp stórviðarsagir í nýju skemmunni á starfstöð Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal, bæði bandsög og tifsög. Þessi nýja sögunarmylla gjörbreytir möguleikum stöðvarinnar til framleiðslu á smíðaviði. Þessa dagana er meðal annars unnið að því að vinna timbur í nýtt þjónustuhús sem rísa mun á næstunni í Laugarvatnsskógi.
Skógardagur Norðurlands var haldinn í Vaglaskógi laugardaginn 11. júlí í þokkalegu veðri, norðaustan golu og lítils háttar rigningu af og til. Ætla má að í það minnsta 300 manns hafi sótt viðburðinn.  Allir fóru glaðir og ánægðir heim eftir ánægjulegan dag.
Bændablaðið sem kom út í vikunni segir frá skemmtilegri aðferð sem Brynjar Skúlason, skógfræðingur og starfsmaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, notar við skógrækt sína heima í Hólsgerði í Eyjafirði. Klárinn Skuggi flytur bakkaplöntur á sérstökum búnaði sem Brynjar fékk austan af landi. Þarfasti þjónninn stendur því undir nafni í skóggræðslu landsins.
Senn rís á Héraði fyrsta húsið sem eingöngu er smíðað úr íslensku timbri. Viðurinn er úr tæplega 30 ára gömlum aspartrjám sem uxu í landi Vallaness. Starfsmenn Skógræktar ríkisins á Hallormsstað unnu viðinn, þurrkuðu og söguðu niður í borð og planka. Valinn asparviður stenst allar kröfur um styrkleika til notkunar í burðarvirki húss sem þessa.
Útlit er fyrir að bitist verði um skógana á Norðurlöndunum á komandi árum. Vaxandi eftirspurn eftir viði á heimsmarkaði togist á við kröfuna um bindingu koltvísýrings og umhverfissjónarmið. Um þetta er fjallað í bók sem kom út nýlega hjá Springer-forlaginu.