Þarfasti þjónninn í skógrækt?

Bændablaðið sem kom út í vikunni segir frá skemmtilegri aðferð sem Brynjar Skúlason, skógfræðingur og starfsmaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, notar við skógrækt sína heima í Hólsgerði í Eyjafirði. Töluverð fyrirhöfn er að flytja trjáplöntur upp í fjallshlíðar og ekki alltaf gott að þurfa að reiða sig á vélknúin ökutæki til þess. Brynjar hefur tekið til kosta traustan klár sem kippir sér ekki upp við óvenjuleg verkefni eða búnað og treystir húsbónda sínum í einu og öllu. Skuggi heitir klárinn og flytur bakkaplöntur á sérstökum búnaði sem Brynjar fékk austan af landi. Þarfasti þjónninn stendur því undir nafni í skóggræðslu landsins.

Margrét Þóra Þórsdóttir blaðamaður ræddi við Brynjar og frétt hennar er á þessa leið:

Brynjar Skúlason, skógfræðingur notar athyglisverða aðferð til að flytja plöntur upp í fjall í Eyjafirði. Þar beitir hann gamalreyndu „flutningatæki“ sem nýtir einungis gras og vatn sem orkugja.

„Hesturinn heitir Skuggi og við eigum heima á bænum Hólsgerði í Eyjafirði og ræktum þar skóg á um 190 ha svæði sem er allt frekar bratt og skorið með mörgum lækjargiljum. Þarfasti þjónninn kemur því vel að notum hér í sveitinni og er algjörlega nauðsynlegur til að flytja plöntur upp í fjall þar sem erfitt er að koma við öðrum flutningstækjum,“ segir Brynjar Skúlason skógfræðingur.

Brynjar tekur þó skýrt fram að þetta sé ekki neitt frumkvöðlastarf hjá sér því þessari aðferð hafi verið beitt á einhverjum bæjum á Fljótsdalshéraði. „Tækin eru fengin að láni hjá Héraðsskógum, tekur alls tuttugu og fjóra 67 gata bakka, en ég lét 14 duga í hverri ferð upp í fjall sem er sama og kemst á pallinn á 6-hjólinu. Engar bilanir, bensín og vesen, bara þramma af stað og plönturnar settar nákvæmlega þar sem á að gróðursetja þær,“ segir Brynjar.

Hann segir að Haraldur Bjarnason á Eyvindará hafi átt hugmyndina að verkfærinu og ræddi hana við starfsmenn Héraðsskóga fyrir mörgum árum. Jóhann Þórhallsson og Sigrún Ólafsdóttir (söðlasmiður) í Brekkugerði útbjuggu klakkinn og Sveinn Óðinn Ingimarsson sauð grindurnar sem festar eru á klakkinn og eru með festingum fyrir plöntubakkana.

Bændablaðið 9. júlí 2015