Tvær myndir sem teknar eru í Múlakoti í Fljótshlíð með 60 ára millibili sýna aspir sem orðnar voru 11 metra háar þegar þær kól niður í rót í aprílhretinu fræga 1963. Aspir sem nú hafa náð 26 metra hæð uxu upp af teinungum frá rótum eldri aspanna og eru nú með allrahæstu trjám landsins. Í Múlakoti er skemmtilegt trjásafn sem ferðalangar á þessum slóðum ættu að staldra við til að skoða.
Út er komið í nýju tölublaði Rits Mógilsár spá um það viðarmagn sem áætla má að fáanlegt verði úr skógum bænda á Fljótsdalshéraði á komandi áratugum. Næstu tíu árin væri hægt að afla þar 24.300 rúmmetra viðar en á tímabilinu 2035-2044 er útlit fyrir magnið verði ríflega 120 þúsund rúmmetrar.
Nýverið voru tekin upp mælitæki í tilraun sem sett var niður í fyrra í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu til að mæla jarðvegsástand í mismunandi landgerðum og hæð yfir sjó. Sams konar mælingar eru gerðar í Hvammi í Landssveit og verkefnið er liður í því að treysta spálíkön sem notuð eru til að velja réttar landgerðir fyrir trjátegundir í skógrækt og minnka afföll vegna veðurfars. Traust spálíkön af þessum toga auðvelda skógræktarskipulag verulega.
Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá, telur að kalda vorið í ár geti haft þau áhrif á skaðvalda á trjám að þeir valdi ekki miklum skaða þetta sumarið. Bæði séu minni líkur á að ryðsveppur nái sér á strik að marki og að skordýr valdi miklum skaða. Hann segir meðal annars að minna sé nú af birkikembu á birkitrjánum en var í fyrrasumar. Rætt er um þetta við Halldór í Morgunblaðinu í dag og einnig um þá kynbótaræktun ryðþolinna asparklóna sem hann stýrir.
Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi kennari á Selfossi, hefur unnið að skógrækt í liðlega hálfa öld og unnið ýmis afrek á því sviði. Skemmtilegar myndir frá skógræktarsvæði hans á Snæfoksstöðum í Grímsnesi sýna frábæran árangur Óskars. Ekki er árangurinn minni þegar litið er til þess að Óskar á marga afkomendur sem leggja skógrækt í landinu drjúgt lið með ýmsum hætti.