Kól niður í rót en eru nú með hæstu trjám landsins

Myndirnar tvær hér til hægri eru báðar teknar í Múlakoti í Fljótshlíð á nákvæmlega sama stað en með um 65 ára millibili. Fyrri myndin er frá því um 1950 og sú seinni var tekin þegar starfsfólk Skógræktar ríkisins kom saman til starfsmannafundar í Fljótshlíð í október 2014. Hákon Bjarnason tók fyrri myndina. Ekki vitum við hver maðurinn er en ef einhver þekkir hann væri gaman að fá upplýsingar um það. Árið 1962 voru aspirnar í Múlakoti orðnar um 11 m háar en þær kól niður í rót í aprílhretinu fræga 1963. Aspirnar sem nú standa eru því teinungar af þeim upphaflegu, komnar í 26 m hæð.

Í Múlakoti var fyrsta gróðrarstöð Skógræktar ríkisins á Suðurlandi og er þar nú eitt elsta og fjölbreyttasta trjásafn Suðurlands með stórvaxin, gömul tré af ýmsum trjátegundum, sumum sjaldséðum. Múlakotsreiturinn var þriðja gróðrarstöð Skógræktar ríkisins á eftir þeim á Hallormsstað og Vöglum og sú fyrsta á Suðurlandi. Stöðin var rekin í rúman áratug en starfsemin fluttist þá að Tumastöðum.

Á árunum 1937-1939 var allmikið flutt inn af ungplöntum frá gróðrarstöðvum í Noregi og enduðu margar þeirra í Múlakoti. Þar á meðal var fyrsta sitkagrenið sem kom til Íslands, einnig fjallaþinur, álmur, askur, silfurreynir, gráreynir, gráelri, risablæösp, selja og viðja. Á stríðsárunum 1939-1945 varð sambandslaust við Noreg en sambönd mynduðust til Bandaríkjanna. Þaðan komu villiepli frá Alaska 1940 og fyrstu græðlingar alaskaaspar 1944. Fyrsta sáning lúpínu til landgræðslu var gerð á Þveráraurum skammt frá gróðrarstöðinni í Múlakoti 1945. Eftir það varð Múlakotsreiturinn og kvíabólið svokallaða að safnreit fyrir ýmsar tegundir sem ekki var treystandi á að gætu lifað annars staðar. Með tímanum bættust því við sífellt fleiri tegundir.

Þjóðskógurinn í Múlakoti er réttilega kallaður trjásafn og þar er að finna hæstu einstöku tré landsins af ýmsum tegundum. Í apríl 1963 varð mikið hret eftir langvarandi hlýindi og í því kól aspirnar í Múlakoti illa. Þær voru allar felldar í kjölfarið. Aspirnar í Múlakoti, sem nú ná um 26 metra hæð, eru því rótarskot upphaflegu aspanna frá 1944 en aðeins er rétt að telja aldur núverandi stofna frá 1963.

Hákon Bjarnason tók eldri myndina sem fyrr segir en þá yngri tók Þröstur Eysteinsson.