Ýmissa grasa - eða trjáa - kennir í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins fyrir árið 2014. Í ritinu eru margvíslegar greinar um skógrækt og skógarnytjar, fjallað um ástand skóga, rannsóknarverkefni, framkvæmdir og fleira.
Líkt og fyrri ár óskar Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, eftir upplýsingum frá fólki um ástand þeirra skóga sem farið er um. Ekki er eingöngu  óskað upplýsinga um skemmdir af völdum skordýrs eða sjúkdóms. Hvers kyns upplýsingar um skemmdir á skógi eru vel þegnar, hvort sem það er vegna saltákomu, hvassviðris, einhverrar óværu eða annars.
Skógræktarmenn fóru um mánaðamótin og skoðuðu blæösp á öllum þeim stöðum á Austurlandi þar sem tegundin hefur fundist villt. Svo virðist sem að minnsta kosti sumir íslensku blæasparklónanna geti orðið að sæmilega stórum og stæðilegum trjám við góð skilyrði og mun beinvaxnari en bæði birki og reyniviður.
Í vikunni voru gróðursettar birki- og lerkiplöntur í tilraunareit á Hólasandi. Markmið tilraunarinnar er að sjá hvernig molta frá Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit hentar sem nesti fyrir skógarplöntur í mjög rýru landi.
Skógræktarfélag Reykjavíkur blæs til Skógarleika, hátíðar fyrir alla fjölskylduna, sem haldin verður á áningarstaðnum Furulundi í Heiðmörk laugardaginn 4. júlí kl. 14-17.  Þar leiða nokkrir færustu skógarhöggsmenn á Suður- og Vesturlandi saman hesta sína í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem axarkasti, trjáfellingu og afkvistun trjábola.