Fullorðin asparglytta. Mynd: Edda S. Oddsdóttir.
Fullorðin asparglytta. Mynd: Edda S. Oddsdóttir.

Allar upplýsingar um heilbrigði skóga vel þegnar

Líkt og fyrri ár óskar Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, eftir upplýsingum frá fólki um ástand þeirra skóga sem farið er um. Ekki er eingöngu  óskað upplýsinga um skemmdir af völdum skordýrs eða sjúkdóms. Hvers kyns upplýsingar um skemmdir á skógi eru vel þegnar, hvort sem það er vegna saltákomu, hvassviðris, óværu eða annars.

Upplýsingarnar notar Edda Sigurdís Oddsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá, til að útbúa svokallaðan skaðvaldaannál fyrir árið, sem birtur er í ársskýrslu Skógræktar ríkisins. Sést hefur að skráning á heilsufari skóga er dýrmæt þegar fram líða stundir, og því er mikilvægt að fá upplýsingar frá sem flestum og sem víðast að af landinu. Allar upplýsingar eru mikilvægar, jafnvel þótt þær séu ekki nema staðfesting á því að engar eða litlar skemmdir hafi orðið á viðkomandi svæði. Með öðrum orðum er líka gott að fá upplýsingar um mjög heilbrigðan og óskemmdan trjágróður.

Edda biður fólk sérstaklega að hafa augun opin fyrir nýjum pestum á svæði sínu, t.d. hvort asparglytta og birkikemba er komin þar sem þessara tegunda hefur ekki orðið vart áður. Vakin er athygli á því að hér á vefnum skogur.is er svokallaður skaðvaldavefur þar sem hægt er að finna myndir af flestum kvikindum, auk þess sem Náttúrufræðistofnun Íslands er með góðan pödduvef.

Hér neðst á síðunni er hlekkur á Excel-skjal sem gæti hjálpað til við skráninguna. Í skjalinu eru þrjú eyðublöð (sheet), eitt sem heitir skaðvaldatafla og er ætlað til að fylla inn í þær skemmdir sem þið finnið. Hin blöðin tvö eru til upplýsingar. Á blaðinu Útskýringar reynum við að útskýra hvað átt er við og á blaðinu Helstu skaðvaldar er listi yfir helstu skaðvalda, skipt niður á trjátegundir. Listinn er byggður á bók Guðmundar Halldórssonar og Halldórs Sverrissonar, Heilbrigði trjágróðurs, sem kom út í fyrra. Þetta er tilraun til að samræma þær upplýsingar sem berast, auk þess sem þetta er vonandi til einföldunar fyrir fólk sem vill senda inn upplýsingar. Allar viðbótarupplýsingar og hugleiðingar eru líka velkomnar, sama þótt þær berist ekki á þessu töfluformi. Eins þiggjum við með þökkum allar ábendingar um það sem betur má fara í töflunni. 

Ljósmyndir mega gjarnan fylgja með. Allar myndir sem berast eru settar inn í gagnagrunn þar sem fram kemur hver tók myndina. Gengið er út frá því að myndir sem berast megi nota í fyrirlestra (þar sem ljósmyndara er getið) en óskað verður sérstaklega eftir því að fá að nota þær í birtingar ef til þess kemur, svo sem í Ársriti Skógræktarinnar. Ef ljósmyndarar vilja ekki að myndirnar verði notaðar skal það tekið skýrt fram.

Upplýsingar skal senda Eddu S. Oddsdóttur í tölvupósti á netfangið edda@skogur.is. Síminn hjá Eddu er 470-2057.

Texti: Pétur Halldórsson