Lárus, sem er tæpir 2 m á hæð, innan um öspina í Jórvík í Breiðdal.
Lárus, sem er tæpir 2 m á hæð, innan um öspina í Jórvík í Breiðdal.

Íslensk blæösp getur orðið stórt og stæðilegt tré

Dagana 30. júní og 1. júlí var farinn leiðangur til að safna sýnum á öllum fundarstöðum blæaspar á Austurlandi. Þeir eru fimm talsins. Sýnatakan er hluti af rannsóknarverkerfni Sæmundar Sveinssonar, sérfræðings hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, sem Landsvirkjun styrkir. Erfðagreina á aspirnar til að fá upplýsingar um skyldleika þeirra við aðrar aspir og þar með hugsanlega um uppruna þeirra. Samstarf er við rannsóknarfólk í Svíþjóð, Englandi og Kanada og verða rótarsýni m.a. send til Svíþjóðar til fjölgunar. Þar verða íslensku blæaspirnar varðveittar framvegis í klónasafni og mögulega notaðar til margs konar rannsókna á tegundinni.

Á Íslandi eru vestustu fundarstaðir blæaspar í heiminum. Auk staðanna fimm á Austurlandi vex blæösp í Garði í Fnjóskadal. Mögulega er sjöundi fundarstaðurinn í Vaðlareit við Eyjafjörð en óvíst er hvort sú ösp er þar frá náttúrunnar hendi eða gróðursett. E.t.v. munu þessar rannsóknir skera úr um það.

Fyrri daginn fóru þeir Sæmundur og Þröstur Eysteinsson í Egilsstaðaskóg og að fundarstaðnum á Höfða. Í Egilsstaðaskógi hefur villt blæösp náð mestum þroska á Íslandi. Þar er hún á margra hektara svæði, er að jafnaði vel beinvaxin og stendur oftast upp úr birkiskóginum. Hæstu aspirnar eru á að giska um 10 m háar.

Á Höfða er ein aspargræða sem er aðeins nokkur hundruð fermetrar að flatarmáli. Hríslurnar hafa þó vaxið vel undanfarin ár, eru beinvaxnar og þær hæstu komnar í um 3 m hæð. Er sú ösp farin að líkjast Egilsstaðaöspinni ískyggilega mikið í vaxtarlagi og greinabyggingu og því hugsanlegt að um sama klón sé að ræða, enda aðeins 3-4 km á milli.

Annan daginn slógust Lárus Heiðarsson og Þór Þorfinnsson með í för. Fyrst var farið að Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði og svo að Strönd í Stöðvarfirði og loks í Jórvík í Breiðdal. Öspin á Gestsstöðum er nokkuð hátt í hlíðinni fyrir ofan bæinn og þekur aðeins nokkur hundruð fermetra. Hún vex innan um mjög lágvaxið birki- og loðvíðikjarr, stendur hvergi upp úr því og nær manni hvergi hærra en í kné. Hún er greinilega talsvert bitin, enda landið ekki friðað fyrir beit.

Öspin á Strönd er einnig lágvaxin en stendur þó upp úr kjarrinu á stöku stað og nær rúmlega mittishæð þar sem best lætur. Auk þess finnst hún á mun stærra svæði, líklega tugum hektara, en heildarstærð útbreiðslusvæðisins hefur þó ekki verið mæld. Líkt og á Gestsstöðum er hún mest ofarlega í hlíðinni þar sem einnig er lágvaxið birki- og loðvíðikjarr. Á báðum stöðunum er sláandi hversu miklu gróskumeira er í 150-200 metra hæð en niður undir byggð, afleiðing langvarandi vetrarbeitar neðarlega í hlíðunum. Ofar voru aspirnar oftar varðar af snjó. Á Strönd er land nú friðað fyrir beit og skógrækt hafin á svæðinu. Fróðlegt verður að sjá hvort öspin tekur þar til við að hækka í loftinu.

Það hefur öspin einmitt gert í Jórvík á undanförnum árum og er sú hæsta komin í 6-7 m hæð. Þarna er nú komin aspargræða á allnokkru svæði með yfir mannhæðar háum trjám. Öspin í Jórvík er að reynast álíka beinvaxin og bæði Egilsstaðaöspin og Garðsöspin.

Það var mjög fróðlegt að koma á alla fundarstaði blæaspar á Austurlandi í einum rykk. Það er greinilegt að a.m.k. sumir íslensku blæasparklónanna hafa getu til að verða að sæmilega stórum og stæðilegum trjám við góð skilyrði og eru mun beinvaxnari en bæði birki og reyniviður. Fleiri myndir úr skoðunarferðinni má sjá hér að neðan.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson