Hæsta tré landsins vekur alltaf athygli. Í Mannlega þættinum á Rás 1 í gær var rætt við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi, um sitkagrenitréð á Kirkjubæjarklaustri sem er um það bil að ná 27 metra hæð. Rætt var vítt og breitt um þá miklu möguleika sem felast í skógrækt hér á landi og hvað skógarnir eru farnir að gefa mikið af sér.
Á heimsráðstefnu skógræktar sem lýkur í dag í Durban í Suður-Afríku voru í gær kunngerð úrslit í Treehousing, alþjóðlegri samkeppni um hönnun timburbygginga. Ríflega 200 verkefni voru send inn í keppnina frá 60 löndum. Margar nýstárlegar og framsæknar hugmyndir voru þar á meðal. Greinilegt er að timbur nýtur vaxandi hylli sem byggingarefni í heiminum enda hentar það vel í stað stáls og steinsteypu nú þegar samfélög jarðarinnar vinna að því að koma sér saman um sameiginleg markmið um sjálfbærni.
Mikil og vönduð vinna liggur að baki þeim tölum sem aðildarþjóðir FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, leggja inn í skýrsluhald um ástand skóganna í heiminum. Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, tekur saman tölur um Ísland og safnar þannig saman á einn stað helstu staðreyndum um þróun íslensku skóganna.
Sitkagrenitré sem talið er vera hæsta tré á Íslandi er nú orðið um 27 metra hátt. Tréð stendur á Kirkjubæjarklaustri og þar eru mörg myndarleg tré af sömu tegund sem gróðursett voru um miðja síðustu öld. Eitt af sverustu trjánum mælist 65 sentímetrar í þvermál í brjósthæð og 25 metra hátt. Það geymir því vel á þriðja rúmmetra viðar.
Frá árinu 1990 hafa skógar eyðst á svæði sem samanlagt er á stærð við Suður-Afríku, um það bil tólf sinnum flatarmál Íslands. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna um ástand skóga heimsins hefur verið kynnt á heimsráðstefnu um skóga sem hófst í Durban í Suður-Afríku í gær. Hægt hefur á skógareyðingunni undanfarin ár en betur má ef duga skal.