Á ráðstefnunni Landsýn sem haldin verður á Hvanneyri 16. október verður ein málstofa fyrir hádegi þar sem fjallað verður um gildi vísinda, menntunar og rannsókna. Eftir hádegi verða tvær aðskildar málstofur, önnur um ábyrga notkun vatns og hin um málefni sem tengjast ferðamönnum.
Síðasta hálfa mánuð hafa sex ungmenni frá alþjólegu sjálfboðaliðasamtökunum Seeds dvalið á Hallormsstað og unnið að lagningu nýs göngustígs fyrir gesti skógarins. Hópurinn hefur unnið með starfsmönnum Skógræktar ríkisins á Hallormsstað við alla verkþætti við göngustígagerð, þ.e. hreinsun teinungs, brúar- og tröppusmíði, borð og bekki, merkingar og aðra jarðvinnu.
Starfsfólk nokkurra stofnana sem vinna að gönguleiðamálum á vegum ríkisins ásamt fulltrúum frá Ferðafélagi Íslands, Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi, Landbúnaðarháskóla Íslands og fleirum sóttu námskeið um viðhald gönguleiða og uppgræðslu rofsvæða sem haldið var í Goðalandi og Þórsmörk í byrjun vikunnar. Að námskeiðinu stóðu  Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins og Umhverfisstofnun.
Á gagnvirkri margmiðlunarsýningu sem stendur yfir dagana 21.-27. september í Grófarhúsinu í Reykjavík fá gestir að kynnast því fjölbreytta hlutverki sem skógurinn gegnir í finnskri menningu. Sýningin kallast „Í íslensku skógunum“ og er hluti af menningarhátíðinni Northern Marginal. Gróðri og menningu finnska skógarins er varpað á íslenskt landslag í gegnum tónverk eftir Sibelius, finnska hönnun og list í því augnamiði að vekja okkur til umhugsunar um fjölbreytileikann í skóginum.
Gamlar og nýjar ljósmyndir úr Haukadal sýna vel þann árangur sem þar hefur náðst með friðun og ræktunarstarfi í 85 ár. Skóginum fylgir mikil gróska, líffjölbreytnin eykst og saman vaxa í sátt þær tegundir sem þar voru áður og nýjar sem þangað hafa borist.