Frá árinu 1990 hafa skógar eyðst á svæði sem samanlagt er á stærð við Suður-Afríku, um það bil tólf sinnum flatarmál Íslands. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna um ástand skóga heimsins hefur verið kynnt á heimsráðstefnu um skóga sem hófst í Durban í Suður-Afríku í gær. Hægt hefur á skógareyðingunni undanfarin ár en betur má ef duga skal.
Spildur úr tveimur eyðijörðum Skógræktar ríkisins í Skorradal hafa verið auglýstar til leigu gegn því að húsin sem á þeim standa verði varðveitt og lagfærð í upprunalegri mynd. Annars vegar er bærinn Sarpur með íbúðarhúsi sem reist var 1938 en hins vegar Bakkakot frá 1931. Minjastofnun Íslands verður höfð með í ráðum um endurbætur á húsunum og varðveislu menningarminja á spildunum.
Átjándi aðalfundur Landssamtaka skógareigenda verður haldinn á Hótel Stykkishólmi dagana 2.-3. október í samstarfi við Félag skógarbænda á Vesturlandi. Málþing verður haldið í tengslum við aðalfundinn þar sem fjallað verður um skógarnytjar á Vesturlandi og um úttektir á árangri í skógrækt og leiðir til úrbóta. Á ársfundi jólatrjáaræktenda sem haldinn er í tengslum við aðalfundinn verður flutt fræðsluerindi um fjallaþin í jólatrjáarækt.
Fjórði fyrirlestrafundur samstarfshóps um ár jarðvegs verður haldinn á veitingastaðnum Flórunni í Grasagarðinum Laugardal í Reykjavík miðvikudaginn 9. september. Björn H. Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, fjallar um vægi jarðvegs í grænu hagkerfi, Jón Örvar G. Jónsson, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands um fjölþætt virði jarðvegs og Björn Guðbrandur Jónsson, framkvæmdastjóri GFF, um hagræna þætti við nýtingu lífrænna úrgangsefna til uppgræðslu í landnámi Ingólfs.
Gamla íbúðarhúsið í Jórvík í Breiðdal hefur nú fengið nýjan svip. Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurgerð hússins sem ásamt jörðinni er í eigu Skógræktar ríkisins. Gert hefur verið við burðarvirki hússins, skipt um alla glugga ásamt klæðningu á þaki og veggjum. Stefnt er að því að húsið og sambyggt fjós líti út eftir endurbæturnar eins og var þegar íbúðarhúsið var reist árið 1928. Hugmyndir eru uppi um að Jórvíkurbærinn verði leigður út sem orlofshús að endurbótum loknum.