Íbúðarhúsið í Jórvík hefur nú að mestu verið gert upp að utan. Húsið var reist 1928 og verður gert u…
Íbúðarhúsið í Jórvík hefur nú að mestu verið gert upp að utan. Húsið var reist 1928 og verður gert upp í upprunalegri mynd ásamt áföstum göngum og fjósi.

Íbúðarhúsið að mestu tilbúið að utan

Gamla íbúðarhúsið í Jórvík í Breiðdal hefur nú fengið nýjan svip. Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurgerð hússins sem ásamt jörðinni er í eigu Skógræktar ríkisins. Gert hefur verið við burðarvirki hússins, skipt um alla glugga ásamt klæðningu á þaki og veggjum. Stefnt er að því að húsið og sambyggt fjós líti út eftir endurbæturnar eins og var þegar íbúðarhúsið var reist árið 1928. Hugmyndir eru uppi um að Jórvíkurbærinn verði leigður út sem orlofshús að endurbótum loknum.

Vinna við endurgerð hússins hófst fyrir fjórum árum og hefur Björn Björgvinsson, húsasmíðameistari á Breiðdalsvík, haft þá vinnu með höndum. Hann hefur reynslu af endurgerð gamalla húsa og var til dæmis byggingameistari þegar gamla kaupfélagshúsið á Breiðdalsvík var gert upp. Viðgerðir á Jórvíkurbænum eru allar unnar í samráði við Minjastofnun og meiningin er að húsið haldi þeim svip sem það hafði í upphafi. Meðal annars eru gluggar smíðaðir með upphaflegu sniði.


Eins og sést á meðfylgjandi myndum er byggingarlagið sérstætt en ber svip timburhúsa sem víða má sjá á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum. Á því eru þakbretti sem náðu út yfir hlöðnu veggina eins og algengt var á slíkum byggingum. Endurbætur á Jórvíkurbænum hafa verið unnar síðastliðin 4 ár eftir því sem styrkir til verkefnisins hafa leyft og nú má segja að húsið sé að mestu leyti fullgert að utan. Frá árinu 2009 hafa verið veittar 13,7 milljónir króna til viðgerðanna og vegur þyngst 10 milljóna króna styrkur frá forsætisráðuneytinu árið 2013.

Húsið í Jórvík er reist í grjóthlaðinni tóft eins og algengt var á þeim tíma þegar timburhús voru að taka við af torfbæjunum. Björn segir að húsið hafi mest þurft viðgerðar við þar sem hleðslur lágu upp að veggjum þess. Samt sem áður hafi það verið í ótrúlega góðu ásigkomulagi þegar viðgerðin hófst, ekki síst þegar haft er í huga að ekki hafði verið búið þar frá árinu 1965. Þegar viðgerðum á íbúðarhúsinu lýkur segir hann stefnt að því að endurgera einnig fjósið sem enn standi eftir leifar af austan við bæinn. Innangengt hafi verið í fjósið úr bænum um göng sem einnig verði hlaðin upp og endurgerð í þeirri mynd sem var þegar húsið var reist 1928. Fjósið stendur ekki uppi nema að takmörkuðu leyti en vel er vitað hvernig það leit út og flórinn er vel varðveittur.

Næsta skref í endurbótunum er hins vegar að undirbúa viðgerðir innan húss, segir Björn. Veggir verða einangraðir og því næst klæddir aftur með sama kúlupanil og á þeim var áður. Hann segir að húsið hafi upphaflega verið reist fyrir tvær fjölskyldur og aðeins tvær vistarverur á hvorri hæð, eldhús og svefnherbergi. Því fyrirkomulagi verði haldið óbreyttu. Húsið reistu tveir bræður sem hugðust búa í því með fjölskyldur sínar og þess vegna er þetta lag innan stokks. Þótt húsið sé vel varðveitt hefur það ekki fengið algjörlega að vera í friði að sögn Björns því fyrir fáeinum árum hvarf eldavélin úr eldhúsinu á neðri hæðinni og sömuleiðis var sagað úr einni innihurðinni og snerill með læsingu og öllu saman numinn á brott. Björn segir þó að hægt verði að gera við hurðina því samsvarandi snerlar séu fáanlegir í staðinn fyrir þann sem stolið var.

Ekki hefur mikið breyst innan húss í Jórvík meðan þar var búið og þannig er auðvelt verk að mála húsið í þeim litum sem þar hafa verið á veggjum. Þetta eru þeir litir sem algengastir voru í híbýlum Íslendinga um og fyrir miðbik 20. aldar, segir Björn, og þeir verða notaðir aftur. Þegar endurgerð lýkur verður Jórvíkurbænum fundið nýtt hlutverk. Helst þykir koma til greina að leigja það út sem orlofshús þótt enn hafi ekkert verið ákveðið í þeim efnum.

frett_19072011_2

Enn er of snemmt að segja til um hvenær húsið verður tilbúið en víst er að fólk sem þar mun dvelja verður ekki svikið af því. Þar munu menn minnast horfins heimafólks í Jórvík, meðal annars Sigríðar Þórðardóttur sem var amma hins landsþekkta listamanns, Hugleiks Dagssonar. Ekki skemmir heldur fyrir náttúrufegurðin í Breiðdalnum. Frá bænum blasir við litadýrðin í Breiðdalseldstöðinni með sínum tilkomumiklu hamrabeltum sunnan fjarðarins. Eldstöðin sú er nú doktorsverkefni bresks jarðfræðinema sem er tíður gestur í Breiðdalnum um þessar mundir vegna þeirra starfa sinna. Suðurhlíðar Breiðdals eru sérstaklega litskrúðugar og berglögin óregluleg með miklum gjóskumyndunum og eldstöðin hefur löngum verið jarðfræðingum aðdráttarafl, innlendum sem erlendum.

Mikið kjarrlendi er í landi Jórvíkur og eru þar 600 hektarar lands í eigu Skógræktar ríkisins. Skógurinn var friðaður 1960 og var Hannes M. Þórðarson kennari helsti forystumaður um skógrækt á jörðinni. Hann gaf Skógrækt ríkisins jörðina 1958 ásamt systkinum sínum þremur, Bjarna, Björgvin og Sigríði, sem voru uppalin í Jórvík. Í landi Jórvíkur er einn af fáum fundarstöðum blæaspar á landinu og eru hæstu trén um 4 m. Landið er annars að mestu vaxið náttúrulegu birkikjarri en gróðursettum skógi að hluta. Þar má finna rauðgreni, sitkagreni, lerki og stafafuru ásamt fleiri tegundum. Svæðið er opið almenningi og merkt gönguleið liggur frá Jórvík yfir í Norðurdal. Einnig er grillaðstaða á fallegum stað við afleggjarann heim að bænum sem Skógrækt ríkisins kom upp fyrir fáeinum árum. Allir eru velkomnir í skóginn í Jórvík eins og í aðra þjóðskóga landsins.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Björn Björgvinsson