Sjálfboðaliðarnir á nýju brúnni ásamt tveimur starfsmönnum Skógræktar ríkisins Hallormsstað. Frá vin…
Sjálfboðaliðarnir á nýju brúnni ásamt tveimur starfsmönnum Skógræktar ríkisins Hallormsstað. Frá vinstri: Edgar frá Mexico, Nele frá Þýskalandi, Bjarki Sigurðsson frá SR., Francois frá Frakklandi, Iza frá Spáni, Kyle frá Hollandi, Monika frá Tékklandi og Ólafur Árni Mikaelsson frá SR.

Gönguleiðir í skóginum alls um 22 km að lengd

Síðasta hálfa mánuð hafa sex ungmenni frá alþjóðlegu sjálfboðaliðasamtökunum Seeds dvalið á Hallormsstað og unnið að lagningu nýs göngustígs fyrir gesti skógarins. Hópurinn hefur unnið með starfsmönnum Skógræktar ríkisins á Hallormsstað við alla verkþætti við göngustígagerð, þ.e. hreinsun teinungs, brúar- og tröppusmíði, borð og bekki, merkingar og aðra jarðvinnu.

Göngustígurinn er um þriggja km langur og liggur með svokölluðum Sellæk upp í gegnum birkiskóginn að gömlu seli og niður í gegnum fjölbreytilegan skóg með ýmiss konar trjátegundum sem göngufólk getur notið á leiðinni. Sérstakt við þessa leið er að upp með Sellæknum er falleg fossaröð sem ekki finnst annars staðar í Hallormsstaðaskógi.


Að sögn Þórs Þorfinnssonar skógarvarðar er þetta harðsnúinn hópur og duglegur enda tekst honum að ljúka því verkefni sem lagt var upp með nú í lok þessara tveggja vikna sem dvölin stendur. Á meðfylgjandi myndum sem Bergrún Anna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður tók má sjá sjálfboðaliðana að störfum ásamt starfsmönnum Skógræktar ríkisins. Þetta eru myndarleg mannvirki úr beinvöxnu lerki úr skóginum.

Í Hallormsstaðaskógi eru nú tíu merktar gönguleiðir, alls um 22 km að lengd. Þeir liggja um fjölbreytt landslag skógarins með fjölbreyttu úrvali trjátegunda. Gönguleiðabæklingur hefur verið gefinn út um skóginn bæði á íslensku og ensku má nálgast hann á ýmsum stöðum í skóginum en einnig á upplýsingamiðstöðvum á Egilsstöðum. Bæklinginn má jafnframt hlaða niður á vefnum.

Sjálfboðaliðasamtökin Seeds hafa frá árinu 2005 tekið á móti yfir 7000 erlendum sjálfboðaliðum til þess að sinna fjölþættum verkefnum á sviði umhverfis- og menningarmála á Íslandi. Þau skipuleggja á hverju ári fjölda vinnubúða um allt land í samstarfi við einstaklinga, félagasamtök og sveitarfélög.


Dvölin stendur alla jafna í hálfan mánuð, oftast með þátttöku 8-12 sjálfboðaliða, og hafa verkefnin verið mjög fjölbreytt. Sjálfboðaliðar hafa hreinsað strandlengju Langaness, Arnarfjarðar, Reykjanesskaga og Viðeyjar, gróðursett tré í Dýrafirði og Bláfjöllum, unnið að lagningu og viðhaldi göngustíga í Vatnajökulsþjóðgarði, Þórsmörk og Fjarðabyggð, aðstoðað við ýmsar hátíðir og menningarviðburði víðs vegar um landið, viðhald minja, fornleifa og sinnt torfvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Sjálfboðaliðar Seeds hafa einnig tekið að sér óvænt verkefni með litlum fyrirvara. T.d. tóku hópar frá Seeds þátt í hreinsunarstarfi eftir eldgosið í Eyjafjallajökli.








Texti: Þór Þorfinnsson og Pétur Halldórsson
Myndir: Bergrún Anna Þorsteinsdóttir