Skógareyðing minnkar en betur má ef duga skal

Frá árinu 1990 hafa skógar heimsins eyðst á svæði sem samanlagt er á stærð við Suður-Afríku, um það bil tólf sinnum flatarmál Íslands. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna um ástand skóga heimsins hefur verið kynnt á heimsráðstefnu um skóga sem hófst í Durban í Suður-Afríku í gær. Hægt hefur á skógareyðingunni undanfarin ár en betur má ef duga skal.

Heimsráðstefnan um skóga, World Forestry Congress (WFC), er nú haldin í fjórtánda sinn á vegum FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Gestgjafalandið að þessu sinni er Suður-Afríka. Þetta er stærsta skógaráðstefna sem haldin er í heiminum og fer fram á sex ára fresti. Hana sækja sérfræðingar, fagfólk, embættisfólk, stjórnmálafólk og áhugafólk hvaðanæva úr heiminum. Ráðstefnan er nú í fyrsta sinn haldin í Afríku og markmiðið í þetta skipti að vekja athygli á mikilvægi skógræktar og skógarnytja fyrir sjálfbæra þróun í heiminum, efla skilning fólks á þeim ógnum sem steðja að skógum heims, benda á lausnir, miðla þekkingu og stuðla að því að tekið sé á brýnustu úrlausnarefnunum. Ráðstefnan er líka vettvangur fyrir háa sem lága til að koma málefnum sínum á framfæri.

Þetta ár mikilvægt

Árið 2015 er talið geta skipt sköpum um framtíð skóga jarðarinnar. Þjóðir heims búa sig nú undir að innleiða sameiginleg markmið um sjálfbæra þróun (Sustainable Development Goals) og undir lok ársins verður haldin í París loftslagsráðstefnan sem kölluð hefur verið mikilvægasti fundur mannkynssögunnar. Við setningarathöfn heimsráðstefnunnar í Durban í gær var kynnt ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna um ástand skóganna í heiminum,  Global Forest Resources Assessment 2015 (FRA2015). Skýrsla sem þessi kemur út á fimm ára fresti á vegum FAO og þar er farið yfir hvernig skógar heimsins hafa þróast undanfarinn aldarfjórðung, hvernig nýtingu þeirra er háttað, hversu sjálfbær nýtingin er og þess háttar.

Helst þykir sæta tíðindum í skýrslunni að á síðustu árum hefur hægt nokkuð á skógareyðingu í heiminum. José Graziano da Silva, forstjóri FAO, sagði við kynninguna í gær að þetta væri vissulega jákvætt en þó ekki nóg. Herða þyrfti á þessari þróun. Frá árinu 1990 hefðu samanlagt eyðst í heiminum skógar á svæði sem væri álíka stórt og Suður-Afríka. Það samsvarar tólfföldu flatarmáli Íslands.


Skógareyðingin mest í Brasilíu og Indónesíu

Undanfarin fimm ár hefur mesta skógareyðingin verið í Brasilíu og Indónesíu að því er fram kemur í skýrslu FAO. Hér má sjá tölur um skógareyðingu í þeim tíu löndum heiminum þar sem mest hefur tapast af skóglendi frá árinu 2010. Tölurnar eru í hekturum.

  1. Brasilía 984.000
  2. Indónesía 684.000
  3. Mjanmar 546.000
  4. Nígería 410.000
  5. Tansanía 372.000
  6. Paragvæ 325.000
  7. Simbabve 312.000
  8. Austur-Kongó 311.000
  9. Argentína 297.000
  10. Venesúela 289.000

(Heimild: FAO FRA 2015)

Samtökin World Wide Fund For Nature, segja skýrsluna staðfesta að gríðarmikið hafi horfið af regnskógi undanfarin 25 ár. Skógarnir muni að halda áfram að eyðast ef ekki verður tafarlaust gripið til róttækra aðgerða. Ella sé hætt við að allt að 170 milljónir hektara skóglendis muni hverfa innan tuttugu ára. Þá myndu skógar eyðast á svæði sem næmi samanlögðu flatarmáli Þýskalands, Frakklands, Spánar og Portúgals.

Engin töfralausn er til við þessum vanda að mati WWF heldur verður að grípa til margvíslegra aðgerða, stækka verndarsvæði, efla sjálfbæra nýtingu, sjálfbæran landbúnað og ekki síst að stuðla að sjálfbærara neyslumynstri jarðarbúa. Verði það ekki gert muni áfram verða þrengt að regnskógunum enda aukist stöðugt þörf mannkyns fyrir mat, orku og ýmis hráefni. Samtökin WWF telja að viðarþörf mannkynsins geti þrefaldast fram til ársins 2050. Samkvæmt FRA2015-skýrslunni gefi ræktaðir skógar stöðugt hærra hlutfall af því timbri sem notað er í heiminum og með sjálfbærri skógrækt megi draga úr ásókninni í villta skóga hitabeltisins.


Hægir á nettótapi skóglendis

Í FRA2015-skýrslunni er ástand skógarmála í 234 löndum og landsvæðum tíundað. Fram kemur að af heimsálfunum er skógareyðingin mest í Afríku, Suður-Ameríku og Suðaustur-Asíu. En þótt enn eyðist mikið skóglendi á ári hverju er því nú fagnað að verulega virðist hafa hægt á nettótapi skóglendis í heiminum. Um og upp úr 1990 minnkaði skóglendi heimsins um 1,18% á hverju ári en sú tala er nú komin niður í 0,08%. Náttúrlegt skóglendi er talið nema um 93% af skógum jarðarinnar og þessir skógar eiga enn undir högg að sækja. Þar er því enn verk að vinna. Á móti kemur að ræktun nýrra skóga hefur aukist og það vegur upp á móti eyðingu villtu skóganna.

Kenneth MacDicken fer fyrir vinnuhópnum hjá FAO sem stýrir gerð FRA2015-skýrslunnar. Fréttavefur BBC hafði eftir honum í Durban í gær að nýting skóganna í heiminum hefði batnað verulega undanfarin 25 ár. Skógræktaráætlanir hefðu batnað, þekking bærist nú betur á milli manna, löggjöf hefði farið fram og stjórnsýslu og stefnumótun sömuleiðis. Víða í löndum heims væri verið að stíga mikilvæg skref í þessum efnum. Asíulönd væru fyrirferðarmest á listanum yfir þau tíu lönd í heiminum þar sem skógar hafa stækkað mest á árabilinu 2010-2015 en vert væri að benda á góðan árangur Bandaríkjanna og Frakklands einnig.

Vernda þarf skóga til að markmið náist

Skógar heimsins fóstra helming allra tegunda dýra, plantna og skordýra sem þrífast á landi. Þrátt fyrir að verndarsvæði hafi víða verið stækkuð bendir FAO á að enn steðji mikil ógn að líffjölbreytni jarðarinnar. Forstjórinn, Graziano da Silva, áréttar að markmið jarðarbúa um að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og innleiða sjálfbærnimarkmið muni ekki nást nema skógarnir verði verndaðir og sú auðlind sem í þeim er fólgin nýtt með sjálfbærum hætti.

Nánari upplýsingar um heimsráðstefnuna í Durban má finna á vef FAO. Þar má t.d. fylgjast með fyrirlestrum í beinni útsendingu.

Texti: Pétur Halldórsson