Landsskýrsla um Ísland komin út

Mikil og vönduð vinna liggur að baki þeim tölum sem aðildarþjóðir FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, leggja inn í skýrsluhald um ástand skóganna í heiminum. Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, tekur saman tölur um Ísland og safnar þannig saman á einn stað helstu staðreyndum um þróun íslensku skóganna.

Á þriðjudag var sagt hér á skogur.is frá nýrri útgáfu heimsskýrslu FAO um skóga, Global Forest Resources Assessment 2015 (FRA2015). Skýrslan var kynnt við upphaf heimsráðstefnu skógræktar sem nú stendur yfir í Durban í Suður-Afríku. Skýrsla sem þessi kemur út á fimm ára fresti á vegum FAO og þar er farið yfir hvernig skógar heimsins hafa þróast undanfarinn aldarfjórðung, hvernig nýtingu þeirra er háttað, hversu sjálfbær nýtingin er og þess háttar. Í talnaefni sem fylgir skýrslunni má finna tölur um Ísland. Þær eru byggðar á gögnum úr landsskýrslu sem Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, skilaði inn til FAO á síðasta ári. Þessi landsskýrsla um Ísland kom út um leið og heimsskýrslan og hana má skoða með því að smella hér.

Gögnin í landsskýrslunni eru aðallega fengin úr hinu viðamikla verkefni sem unnið er á Mógilsá og kallað er Íslensk skógarúttekt. Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá stýrir verkefninu sem er eitt það umfangsmesta sem unnið er á vegum Skógræktar ríkisins. Alls eru tæplega 1.000 mælifletir mældir á 5 ára fresti. Mælifletir eru valdir eftir skipulögðu kerfi um allt land, gerðar mælingar á trjágróðri, botngróðri, jarðvegi og fleiru, umhverfinu lýst og kolefnisbúskapur rannsakaður svo eitthvað sé nefnt.


Taflan hér að ofan er tekin úr landsskýrslunni og sýnir eignarhald á skógum á Íslandi. Í skýrslunni er að sjálfsögðu mikið af þess háttar upplýsingum um skóga og skógrækt á Íslandi í nútíð og fortíð sem forvitnilegt er að skoða og velta fyrir sér í samhengi við heimstölurnar. Landsskýrslan hefur líka að geyma ýmislegt fleira sem áhuga- og fagfólki í skógrækt gæti þótt áhugavert að skoða, upplýsingar um skaðvalda, tölur um hlutfall tegunda í skógrækt og fleira og fleira.

Í áðurnefndu talnaefni sem fylgir heimsskýrslu FAO (FRA2015) koma líka fram helstu tölurnar um íslensku skógana. Þar er hægt að bera þær saman við tölur frá öðrum löndum, svo sem um útbreiðslu skóga, nýskógrækt, framlög til skógræktar, skógareyðingu og fleira.


Texti: Pétur Halldórsson