Ayla Harvey frá Suður-Afríku hlaut verðlaun fyrir fjölbýlishúsaþyrpingu sem hún kallar ‘Jungle Gym' …
Ayla Harvey frá Suður-Afríku hlaut verðlaun fyrir fjölbýlishúsaþyrpingu sem hún kallar ‘Jungle Gym' sem dómnefndinni þótti virkja vel kraftinn í nútíma borgarsamfélagi. Mynd: FAO

Alþjóðleg samkeppni um hönnun timburbygginga

Á heimsráðstefnu skógræktar sem lýkur í dag í Durban í Suður-Afríku voru í gær kunngerð úrslit í Treehousing, alþjóðlegri samkeppni um hönnun timburbygginga. Ríflega 200 verkefni voru send inn í keppnina frá 60 löndum. Samkeppnina héldu í sameiningu kanadíski hönnunarskólinn Design Build Research School (DBR) og FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Greinilegt er að timbur nýtur vaxandi hylli sem byggingarefni í heiminum enda hentar það vel í stað stáls og steinsteypu nú þegar samfélög jarðarinnar vinna að því að koma sér saman um sameiginleg markmið um sjálfbærni.

Þátttakendum í samkeppninni var uppálagt að setja fram nýstárlega og sjálfbæra hönnun sem hentað gæti sístækkandi borgum Afríku en líka víðar um heiminn. Byggingarefnið skyldi aðallega vera timbur úr endurræktuðum, sjálfbærum skógum eða afurðir og efni úr slíku timbri.

„Eitt aðalmarkmiðið með samkeppninni var að vekja athygli á þeim miklu möguleikum sem felast í notkun löglega fengins timburs úr sjálfbærum skógum, hagkvæmni og fjölbreytilegum möguleikum slíks byggingarefnis og að timur sé vænlegur kostur í stað óendurnýjanlegra hráefna í byggingar eins og stáls og steypu sem skilja eftir sig mun stærra kolefnisfótspor en timbrið,“ segir Jukka Tissari, fulltrúi timburmála hjá FAO, í frétt á vef heimsráðstefnunnar í Durban.


Gróðursælt háhýsi, ‘Nkosi Market', var hugmynd bandarísku arkitektastofanna Koura Studios og ARUP Seattle sem deildi fyrstu verðlaununum með ‘Jungle Gym'. Mynd: FAO.

Og Jukka Tissari heldur áfram: „Ræktun og nýting trjáviðar er nauðsynlegt tæki til að ná settum markmiðum um sjálfbæra þróun. Timbur hefur verið notað til húsasmíða í þúsundir ára um allan heim. Eitt af hverjum þremur húsum í heiminum er úr tré. Samt sem áður hefur tilhneigingin verið sú að horfa fram hjá þeim möguleika að nota timbur sem aðalbyggingarefni við gerð stórbygginga nútímans.“

„Við vonum að öll þau mörgu frambærilegu verkefni sem send voru inn í þessa keppni muni verða hvatning og innblástur fyrir stjórnsýslu- og stjórnmálafólk, arkitekta, skipulagsfræðinga og aðra hönnuði, hvatning til að opna hug sinn fyrir því að nýta endurnýjanlegt timbur úr sjálfbærum skógum til húsbygginga sem mikilvægan þátt á leiðinni til sjálfbærrar þróunar.“

Háar og hagkvæmar timburbyggingar

Kanadíski arkitektinn Michael Green, höfundur bókarinnar The Case for Tall Wood Buildings, fór fyrir dómnefndinni sem einnig sátu í breski arkitektinn Andrew Waugh og suður-afríski arkitektinn Richard Stretton.

Samkeppnin skiptist í tvo flokka. Í fyrri flokknum áttu þátttakendur að hanna byggingu fyrir 2.280 fermetra svæði í grennd við miðborgina sem borgaryfirvöld ákváðu að leggja undir háreist timburhús.

Tveir þátttakendur deildu með sér sigurlaununum í þessum flokki. Annars vegar er arkitektaneminn Ayla Harvey frá Suður-Afríku sem hlaut verðlaunin fyrir fjölbýlishúsaþyrpingu sem hún kallar ‘Jungle Gym' og dómnefndinni þótti virkja vel kraftinn í nútíma borgarsamfélagi. Hins vegar hlutu fyrstu verðlaunin bandarísku arkitektastofurnar Koura Studios og ARUP Seattle fyrir bygginguna ‘Nkosi Market' sem dómnefndinni þótti bera vott um góðan skilning á skógrækt í Suður-Afríku og skógarafurðum þar í landi. Nemendaverðlaunin í þessum flokki voru veitt fyrir verkefnið ‘The Social Net Wood' eftir fransk-þýska hópinn STark. Sú hugmynd þótti dómnefndinni vera algjörlega byggingarhæf.

Í seinni flokki samkeppninnar var þátttakendum uppálagt að hanna ódýrt húsnæði úr timbri fyrir hvaða stað sem væri í heiminum. Vegna þess að heimsráðstefna skógræktar fer nú fram í Afríku í fyrsta sinn var þó hvatt til þess að hönnuðirnir huguðu að ýmsum úrlausnarefnum sem við er að fást þar í álfunni.


Ítalska hugmyndin ‘(HOUSE)TREE(WORK)', sem hlaut önnur verðlaun í flokki ódýrra húsa, er hugsuð fyrir sjálfbært sveitasamfélag í Eþíópíu. Mynd: FAO.

Fyrstu verðlaun í þessum flokki hlaut ítalska arkitektateymið Shosholoza and Friends fyrir hönnun sína sem kallast ‘(HOUSE)TREE(WORK)'. Hún er hugsuð fyrir sjálfbært sveitasamfélag í Eþíópíu og fékk sérstakt lof dómnefndar fyrir að vera skýr og einföld. Önnur verðlaun hlaut arkitektastofan A.gor.a Architects í Taílandi fyrir ‘Temporary Dormitories for Mae Tao Clinic', gistiskýli fyrir sjúkrahús í Taílandi. Það þótti dómnefndinni vera til fyrirmyndar um hagkvæmni og haganleik. Nemendaverðlaunin í þessum flokki hlaut Monika Wozniak frá Póllandi fyrir ‘Natural Wood Skin', byggingu sem hönnuð er fyrir Hong kong borg og dómnefndinni þótti vera metnaðarfull hugmynd um hönnun hárra turna.

Dómnefndarformaðurinn Michael Green segir þá í dómnefndinni hafa verið bæði hrifna og ánægða með hversu margar hugmyndir voru sendar inn í keppnina og hversu góðar þær voru. Timbur njóti nú á ný vaxandi hylli sem byggingarefni um allan heim. Arkitektar og hönnuðir tileinki sér það nú á nýjan og skapandi hátt með sjálfbærni að leiðarljósi. Ný viðartækni tengi skógrækt og viðarvinnslu í dreifbýli saman við sístækkandi þéttbýlið með sífellt stærri timburbyggingum sem nú séu líka teknar að teygja sig meira til himins.

„Þessi samkeppni undirstrikar þau áhrif sem arkitektar og aðrir hönnuðir geta haft á endurmótun samfélaga okkar, þar á meðal borganna, með heilsusamlegum, öruggum, sjálfbærum og fallegum timburbyggingum sem tengja sérhvern íbúa við undur náttúrunnar,“ segir Green.

Heimsráðstefna skógræktar

Fjórtándu heimsráðstefnu skógræktar, XIV World Forestry Congress, lýkur í dag. Þar hafa rúmlega þrjú þúsund manns hvaðanæva úr heiminum, skógfræðingar, skógræktarfólk og bakhjarlar skógræktar, setið saman frá því á mánudag, miðlað þekkingu, reynslu og hugmyndum sín á milli, myndað tengsl og rætt hvernig styrkja megi þátt skóganna á jörðinni á leið okkar til sjálfbærrar þróunar.

Meiningin er að helsti afrakstur ráðstefnunnar verði ný framtíðarsýn um skóga og skógrækt, ekki síst fyrir allan þann fjölda jarðarbúa sem treystir á skóganna sér til skjóls og lífsviðurværis. ráðstefnan mun senda skýr skilaboð til umheimsins um hlutverk skóga í innleiðingu sjálfbærnimarkmiðanna sem þjóðir heims vinna nú að og þessi skilaboð verða líka vegarnesti þeim sem koma saman í París í desember til að ná saman um nýjan loftslagssamning á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson