Sjónvarpsþátturinn Landinn fjallaði um víxlfrævun evrópu- og rússalerkis sunnudaginn 12. apríl. Fylgst var með því þegar starfsfólk Skógræktar ríkisins og Norðurlandsskóga bar frjó milli tegundanna og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna, sagði frá þessu kynbótastarfi.
Á málþingi um Hekluskóga sem haldið verður í Gunnarsholti á Rangárvöllum 16. apríl verður farið yfir stöðu verkefnisins, þann árangur sem náðst hefur og framtíðarhorfur á hinu víðfeðma starfsvæði Hekluskóga. Einnig verður fjallað um rannsóknaverkefni á starfsvæðinu og helstu niðurstöður.
Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, hefur í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands sótt um styrk til að meta áhrif eldgossins á skóga og lífríki í nágrenni þeirra. Áhrifin verða metin með þrennum hætti, með vöktun og sýnatöku á trjám, vatnssýnatöku úr dragalækjum á Héraði og mælingum á sýrustigi jarðvegs og botngróðri.
Skógrækt á Brunasandi og áhrif hennar er meðal umfjöllunarefna á ráðstefnu sem haldin verður í Þjóðminjasafninu í Reykjavík laugardaginn 11. apríl. Verkefnið Mótun lands og samfélags er rannsóknarverkefni níu vísinda- og fræðimanna á Brunasandi, yngstu sveit á Íslandi, sem til varð í kjölfar Skaftárelda 1783 -1784. Rannsóknir á Brunasandi hafa staðið yfir sl. þrjú ár og lýkur með útgáfu á rannsóknarniðurstöðum í héraðsriti Skaftfellinga Dynskógum, sem kemur út 23. maí 2015.
Nú er sáningartíminn farinn í hönd og upplagt að vekja athygli á nýuppfærðum frælista Skógræktar ríkisins. Fræmiðstöðin á Vöglum í Fnjóskadal selur trjáfræ af flestum skógartrjám sem bera fræ á Íslandi.