Fylgst með frævunardegi á Vöglum

Sjónvarpsþátturinn Landinn fjallaði um víxlfrævun evrópu- og rússalerkis sunnudaginn 12. apríl. Fylgst var með því þegar starfsfólk Skógræktar ríkisins og Norðurlandsskóga bar frjó milli tegundanna og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna, sagði frá þessu kynbótastarfi.

Kynningartexti um þáttinn er á þessa leið á vef Ríkisútvarpsins:

Í um 20 ár hefur verið unnið að kynbótum á lerki á Íslandi. Afrakstur þeirrar vinnu er hrymur, blendingur rússalerkis og evrópulerkis sem hefur reynst afar vel við íslenskar aðstæður.
Hrymsfræið er framleitt í fræhúsinu á Vöglum. Þar eru búnar til kjöraðstæður fyrir fræplönturnar og séð til þess að þær blómgist allar á sama tíma. Þá þarf að kalla til sjálfboðaliða sem taka að sér hlutverk býflugnnar í einn eða tvo daga. Frjóið er hrist úr karlblómum rússalerkisins og því penslað á kvenblóm Evrópulerkisins og öfugt.Í haust verða könglarnir týndir af trjánum og fræinu safnað saman og hreinsað. Því verður svo sáð í gróðrarstöðvum víða um land næsta vor. Vorið 2017 verða plönturnar tilbúnar til gróðursetningar.Besta uppskeran af hrymsfræi hingað til náðist haustið 2013 en þá safnaðist fræ sem hefði dugað í hátt í 400.000 plöntur.Landinn leit inn í fræhúsið á Vöglum og fékk að fylgjast með frævuninni.

Þáttinn í heild má sjá hér en innslagið um Hrym hér.