Mótun lands og samfélags 1783-2014

Skógrækt á Brunasandi og áhrif hennar er meðal umfjöllunarefna á ráðstefnu sem haldin verður í Þjóðminjasafninu í Reykjavík laugardaginn 11. apríl. Verkefnið Mótun lands og samfélags er rannsóknarverkefni níu vísinda- og fræðimanna á Brunasandi, yngstu sveit á Íslandi. Sveitin varð til í kjölfar Skaftárelda 1783 -1784 og varð byggileg þannig að landnám hófst þar 1823 með útmælingu á býlinu Orustustöðum. Rannsóknir á Brunasandi hafa staðið yfir sl. þrjú ár og lýkur með útgáfu á rannsóknarniðurstöðum í héraðsriti Skaftfellinga Dynskógum, sem kemur út 23. maí 2015.

Markmið ráðstefnunnar er að kynna helstu niðurstöður þessara rannsókna svo og úgáfu ritsins þar sem allar rannsóknarniðurstöðurnar birtast. Rannsóknin  er þverfagleg þar sem allir helstu þættir í mótun lands og samfélags eru rannsakaðir.

Yfirskriftin er Ráðstefna um Brunasand: Mótun lands og samfélags 1783-2014. Ráðstefnan hefst kl. 10.30 og lýkur upp úr kl. 16. Þetta er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Kirkjubæjarstofu Kirkjubæjarklaustri, Vatnajökulsþjóðgarðs Vina Vatnajökuls, Héraðsritsins Dynskóga, Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands.

Dagskráin er eftirfarandi:

10.30 Setning ráðstefnunnar: Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
10.45 Ráðstefnustjórar kynna tilhögun dagsins.
10.50 Vinir Vatnajökuls, kynning: Kristbjörg Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri.
11.00 Brunasandur; kynning á staðháttum og verkefninu: Jón Hjartarson.
11.10 Brot af jarðsögu Brunasands: Dr. Helgi Björnsson, jöklafræðingur.
11.40 “Vötnin byltast að Brunasandi, bólgnar þar kvikan gljúp“: Dr. Bergrún Óladóttir, jarðfræðingur og Margrét Ólafsdóttir, landfræðingur.
12.10 Hádegishlé.
12.50 Flóra, gróður og umhverfi á Brunasandi og í nærsveitum og af athafnasemi náttúrunnar, hverfulleika og nýju upphafi: Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor.
13.20 Fuglalíf á Brunasandi: Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur.
13.45 Landnám og mótun samfélags á Brunasandi 1823-2012: Jón Hjartarson.
14.15 Búsetuminjar á Brunasandi: Ásta Hermannsdóttir, MA fornleifafræðingur, verkefnisstjóri hjá Minjastofnun Íslands.
14.40 Kaffihlé.
15.00 Landnám sagnahefðar á Brunasandi: Júlíana Þóra Magnúsdóttir, þjóðfræðingur.
15.30 Skógræktin á Brunasandi: Dr. Edda Oddsdóttir , líffræðingur.
16.00 Ráðstefnuslit: Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps og formaður stjórnar Kirkjubæjarstofu. 

Ráðstefnan er ókeypis og öllum opin meðan húsrúm leyfir.