Áhrif öskufalls frá Heklugosum á gróður verða mun minni ef landið er vaxið skógi. Birki þolir til dæ…
Áhrif öskufalls frá Heklugosum á gróður verða mun minni ef landið er vaxið skógi. Birki þolir til dæmis töluvert öskufall en lággróðurinn kafnar

- staða og framtíðarhorfur verkefnisins

Hekluskógar bjóða til málþings í Gunnarsholti 16. apríl kl. 13 til 16.30. Hekluskógar hafa starfað að endurheimt birkiskóga í nágrenni Heklu frá árinu árið 2007 og hefur mikið áunnist í uppgræðslu og ræktun birkilunda frá því að verkefnið hófst.

Á málþinginu verður farið yfir stöðu verkefnisins, þann árangur sem náðst hefur og framtíðarhorfur verkefnisins á hinu víðfeðma starfsvæði Hekluskóga. Einnig verður fjallað um rannsóknaverkefni sem unnin hafa verið á starfsvæði verkefnisins og helstu niðurstöður þeirra.

Athugið breytta tímasetningu á málþinginu frá því sem áður hefur verið kynnt. Það hefst kl. 11 og stendur til kl. 16. Boðið verður upp á súpu og brauð í hádeginu. Skráning á ráðstefnuna fer fram í tölvupósti til Eddu Linn Rise á netfangið eddalinn@land.is. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig sem fyrst. Dagskrá málþingsins er að finna á auglýsingunni hér neðst á síðunni.

Nánar um Hekluskóga

Skógur er það gróðursamfélag sem þolir hvað best öskufall. Hugmyndin um Hekluskóga er að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu sem minnka myndu vikurfok í kjölfar gjóskugosa úr eldfjallinu og verja þar með lönd í nágrenni fjallsins fyrir jarðvegseyðingu. Mögulegur ávinningur af Hekluskógum er margvíslegur. Gróðurfar og dýralíf eykst og verður fjölbreyttara, vatnsheldni jarðvegs verður meiri, lækir myndast og kolefnisbinding verður í gróðri. Með skóginum aukast einnig landnýtingarmöguleikar á svæðinu, svo sem frístundabyggð og útivist auk þess sem beitarþol eykst.

Hekluskógar hafa starfað formlega frá maí 2007, en undirbúningsvinna hófst af krafti fyrir rúmum áratug þegar samráðsnefnd um Hekluskóga hóf störf. Mikið starf hefur verið unnið á starfstíma Hekluskóga bæði að gróðursetningu, uppgræðslu og sáningu, en einnig hafa ýmis rannsóknaverkefni verið unnin á svæðinu síðustu ár. Á málþinginu verður gerð grein fyrir því starfi sem unnið hefur verið.

Texti: Pétur Halldórsson og Hreinn Óskarsson
Mynd: Hreinn Óskarsson