Loftmynd af gosinu í Holuhrauni snemma í september 2014. Mynd: Wikimedia Commons - Peter Hartree.
Loftmynd af gosinu í Holuhrauni snemma í september 2014. Mynd: Wikimedia Commons - Peter Hartree.

Vöktunarverkefni komið í gang

Áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni á gróður og lífríki voru rædd á málþingi sem haldið var 23. mars í Bændahöllinni í Reykjavík. Þar kom fram að þrátt fyrir hið mikla magn mengunarefna sem kom upp í gosinu væru líkurnar á að gosið hefði alvarleg áhrif á lífríki og dýralíf minni en óttast hefði verið. Enn sé þó eftir að rannsaka þetta betur og fylgjast með framvindu og ekki hægt að staðhæfa neitt með fullri vissu eins og er. 

Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, hefur í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands sótt um styrk til að meta áhrif eldgossins á skóga og lífríki í nágrenni þeirra. Áhrifin verða metin með þrennum hætti:

  1. Vöktun og sýnataka á trjám
    Fylgst verður með hugsanlegum skemmdum á laufi sígrænna og lauffellandi trjátegunda við upphaf og lok vaxtartíma trjánna, auk þess sem skógvaxtamælingar verða gerðar í september.

  2. Vatnssýnataka úr dragalækjum á Héraði
    Fylgst verður með sýrustigi og efnabreytingum lækja í leysingum í vor. Lækirnir eru sömu lækir og mældir voru í verkefninu SkógVatn og því verður hægt að bera núverandi niðurstöður saman við fyrri mælingar.

  3. Mælingar á sýrustigi jarðvegs og botngróðursmælingar
    Notaðir verða reitir úr verkefninu SkógVist og sýrustig jarðvegs mælt. Niðurstöðurnar verða svo bornar saman við fyrri mælingar sem gerðar voru fyrir gos. Enn fremur verður metið hvort breytingar verða á botngróðri frá fyrirliggjandi mælingum í sömu reitum.

Þrátt fyrir að enn hafi ekki borist svar um hvort fjármagn fæst til rannsóknanna þá er ekki hægt að bíða með sýnatöku ef af á að verða. Því fóru starfsmenn S.r. og LbhÍ á fyrsta degi aprílmánaðar til sýnatöku úr lækjum og snjósköflum á Héraði. Fyrstu niðurstöðurnar sýna ekki veruleg áhrif á sýrustig eða rafleiðni lækja 1.apríl 2015 miðað við fyrri mælingar, enda voru ekki leysingar þennan mælingardag. Mikilvægt er að endurtaka sýnatöku úr lækjarvatni þessara sömu lækja reglulega, sérstaklega þegar miklar leysingar verða.

Mælingar á snjó á Hallormsstaðahálsi virðast sýna súrnun á 0,5-1,5 m dýpi en bera þarf þær niðurstöður saman við aðrar mælingar til að geta metið hvort þessi súrnun er eðlileg miðað við náttúrulegan breytileika í sýrustigi vetrarúrkomu á svæðinu. Skýrsla um þessar fyrstu mælingar er í vinnslu og verður vonandi hægt að birta hana hér innan tíðar.

Texti: Edda S. Oddsdóttir og Pétur Halldórsson