Tveir skólar á Laugarvatni, Menntaskólinn á Laugarvatni og Bláskógaskóli, hafa efnt til samstarfs við Skógræktina um að efla gróður á Langamel í vestanverðum Helgadal. Borið verður á landið og sáð gras- og hvítsmárafræi og gróðursettar verða um 900 birkiplöntur.
Með hlýnandi loftslagi nær birki að vaxa ofar í hlíðum dala og fjalla, jafnvel á hálendi landsins. Birki sem vex í 624 metra hæð yfir sjó í Austurdal í Skagafirði hefur nú misst Íslandsmeistaratitil sinn því fundist hefur lifandi birkiplanta í 660-680 metra hæð í Útigönguhöfða á Goðalandi.
„Þetta gerði það að verkum að það varð skógræktarvakning á Íslandi. Út um allt Ísland er verið að rækta skóga. Ekki vissum við þá eða höfðum að minnsta kosti ekki í hávegum að það eru einmitt skógarnir sem binda koltvísýringinn úr andrúmsloftinu.“ Þetta segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sem finnur fyrir vakningu unga fólksins fyrir loftslagsmálum.
Þátttaka leik- og grunnskóla í Árborg í verkefninu „Gullin í grenndinni“ hefur aukið áhuga barna á útiveru og umhverfi. Þau eru ófeimnari að nýta sér skóginn til útivistar og leikja og fara nú út í öllum veðrum. Nemendur sem eiga við hegðunar- og samskiptaörðugleika að etja njóta sín gjarnan betur þegar þau eru úti í náttúrunni. Þetta er mat leikskólakennara á Selfossi sem hefur tekið þátt í verkefninu. Nú hefur verið undirritaður formlegur samstarfssamningur um verkefnið.
Jafnvel þótt ræktaður skógur kunni að verða á fáeinum prósentum landsins eftir nokkra áratugi hverfa engin fjöll. Alls staðar verður um ókomna tíð stutt að fara úr skjóli og hlýindum skógarins út í næðinginn þar sem sést í allar áttir. Skógarbændur sitja ekki eftir með digra sjóði þegar plönturnar eru komnar í jörð. Gróðinn verður komandi kynslóða og þjóðarbúsins í framtíðinni sem fær fjárfestinguna margfalda til baka, bæði í formi kolefnisbindingar og ýmiss konar viðarafurða.