Skólafólk frá Laugarvatni við gróðureflingarstarf á Langamel. Ljósmynd: Menntaskólinn á Laugarvatni.
Skólafólk frá Laugarvatni við gróðureflingarstarf á Langamel. Ljósmynd: Menntaskólinn á Laugarvatni.

Tveir skólar á Laugarvatni, Menntaskólinn á Laugarvatni og Bláskógaskóli, hafa efnt til samstarfs við Skógræktina um að efla gróður á Langamel í vestanverðum Helgadal. Borið verður á landið og sáð gras- og hvítsmárafræi og gróðursettar verða um 900 birkiplöntur.

Melurinn er við gamla Gjábakkaveginn þar sem áður var skíðasvæði Laugvetninga en hluti hans er innan skógræktargirðingar. Virkt rof er enn á melnum, bæði vind- og vatnsrof, og yfir hann blæs kaldur strengur ofan úr Helgadal þannig að skilyrði eru heldur slæm. Menntaskólinn á Laugarvatni hefur vaktað svæðið undanfarin ár og í ljós hefur komið að gróður hefur látið heldur undan síga. Því var ákveðið að ráðast í róttækar aðgerðir. Sveitarfélagið Bláskógabyggð veitti 100.000 kr. styrk fyrir áburði og fræi, Skógræktin lagði til 600 birkiplöntur og Yrkjusjóður 300 til viðbótar.

Nemendur á mið- og elsta stigi Bláskógaskóla unnu að uppgræðslu á Langamel í maímánuði. Þegar verkið reyndist meira en svo að því myndi ljúka áður en skólaárið væri úti var fenginn liðsauki frá almenningi úr sveitinni. Byrjað var á að græða upp innan skógræktargirðingarinnar og tókst í vor að vinna á svæði sem er um 2 hektarar að stærð. Enn er þó mikið óunnið og er ætlunin að haldið áfram að vinna að uppgræðslu á Langamel á komandi árum.

Heiða Gehringer, formaður umhverfisnefndar Menntaskólans á Laugarvatni, segir á Fréttavef Suðurlands, DFS.is, að einhvern tíma þurfi svo að breyta heiti melsins Langamel í Langaskóg, Fagraskóg eða annað viðeigandi nafn. Þarna megi sjá fyrir sér skemmtilegt útivistarsvæði.

Texti: Pétur Halldórsson