Hvort sem er vetur eða sumar, vor eða haust, fara börnin út í skóginn til að læra og upplifa. Börn s…
Hvort sem er vetur eða sumar, vor eða haust, fara börnin út í skóginn til að læra og upplifa. Börn sem ekki eru sterkust inni við geta orðið forystufólk þegar komið er út undir bert loft. Ljósmynd: Anna Gína Aagestad

Þátttaka leik- og grunnskóla í Árborg í verkefninu „Gullin í grenndinni“ hefur aukið áhuga barna á útiveru og umhverfi. Þau eru ófeimnari að nýta sér skóginn til útivistar og leikja og fara nú út í öllum veðrum. Nemendur sem eiga við hegðunar- og samskiptaörðugleika að etja njóta sín gjarnan betur þegar þau eru úti í náttúrunni. Þetta er mat leikskólakennara á Selfossi sem hefur tekið þátt í verkefninu. Nú hefur verið undirritaður formlegur samstarfssamningur um verkefnið.

Flutningur furutrjáa. Ljósmynd: Anna Gína AagestadSamningurinn var undirritaður í Þingborg í Flóa 6. maí milli Flóahrepps og Skógræktarfélags Vill­inga­holts­hrepps, Skógræktarinnar og Skóg­ræktar­félags Árnesinga. Gullin í grenndinni stendur fyrir að nemendur rannsaki og kynnist samfélagi sínu á fjölbreyttan hátt. Það getur meðal annars tengst efnahagslegum, sam­félagslegum, félagslegum, menningarlegum og náttúrlegum þáttum. Verkefnið hófst á Selfossi árið 2012 með þátttöku Leikskólans Álfheima og Vallaskóla. Á vorönn 2019 bættust leikskólinn Krakkaborg í Flóahreppi og Flóaskóli í hópinn. Strax í upphafi var lögð áhersla á að tengja samfélagið á hverjum stað við verkefnið til að styðja við kennarana með faglegri þekkingu.

Ákveðin rammi er utan um ferðirnar. Börnin hittast einu sinni í mánuði og þegar komið er í skóginn er þeim skipt í hópa. Börnin eru alltaf í sömu hópum og áður en verkefnavinna hefst kynna þau sig og kennarinn segir frá verkefni dagsins. Að lokinni verkefnavinnu hittast allir þátttakendur og fá sér heitan skógarsafa og síðan er frjáls leikur. Verkefnastjórar sjá um skipulagningu ferðanna og koma upplýsingum til samkennara sinna.

Anna Gína Aagestad, leikskólakennari í Leikskólanum Álfheimum á Selfossi, átti þátt í því að koma þessu verkefni á fót í Árborg. Skógur.is spurði hvenær það hefði verið, hvers vegna verkefnið hefði verið sett á laggirnar þar, hverjir hefðu tekið þátt í þessu þverfaglega samstarfi um verkefnið Gullin í grenndinni.

„Hugmyndin að verkefninu kom eftir fyrirlestur sem ég sat hjá Ólafi Oddssyni í Kennaraháskóla Íslands árið 2011 og til að gera langa sögu stutta hafði ég samband við hann. Á einhvern ótrúlegan hátt hófst verkefnið ári seinna og hafði þá fengið styrk frá Sprotasjóði. Markmið okkar með verkefninu var að stuðla að sam­fellu milli skólastiga ásamt því að nemendur leik- og grunnskóla á Selfossi myndu með sameiginlegri verkefnavinnu afla upplýsinga um menningu, minjar, atvinnuhætti og náttúru í heimabyggð. Við töldum nauðsynlegt að tengja aðila innan samfélagsins við verkefnið og fengum til liðs við okkur umhverfisdeild Árborgar, Suðurlandsskóga sem þá voru og hétu og Landbúnaðarháskóla Íslands. Áður en verkefnið hófst var það vel undirbúið af verkefnastjórum, skólastjórum skólanna, fræðslustjóra Árborgar og samstarfs­aðil­um. Að mínu mati hefði þetta ekki tekist eins vel og það gerði nema með stuðningi þessara aðila en verkefnið er að ljúka sínu sjötta starfsári á Selfossi. Eins og fram kom hófu leikskólinn Krakkaborg og Flóaskóli þátttöku í Gullunum í grenndinni nú á vorönn og er markmið þeirra að nemendur stuðli að aukinni kolefnisbindingu úr andrúmslofti með því að efla skógrækt í skógarreitnum Skagási og hefjast handa við að byggja upp skóg við Flóaskóla. Samstarfsaðilar eru Skógræktarfélag Villingaholtshrepps, Skógræktarfélag Árnesinga og Flóahreppur.“

Hvað merkir heiti verkefnisins „Gullin í grenndinni“ og hvaðan er hugmyndin?

„Ólafur átti hugmyndina að nafninu og okkur fannst það ramma vel inn þau markmið sem Gullin í grennd­inni standa fyrir, þ.e. að vekja athygli á og gefa nemendum tækifæri til þess að læra um nærumhverfið með þátttöku- og þverfaglegu námi sem getur stuðlað að lýðræðislegum vinnubrögðum og samfélagslegri ábyrgð nemenda. Nafnið er fallegt og ég tel að það geti ýtt undir virðingu og væntum­þykju barnanna á nágrenni sínu.“

Ef markmið verkefnisins var fyrst og fremst að tengja leik- og grunnskólastarf á Selfossi við samfélag, menningu, minjar, atvinnuhætti og náttúru, af hverju varð skógurinn að einhvers konar miðju í því að tengja saman skólastigin og af hverju urðu Leikskólinn Álfheimar og Vallaskóli þeir sem helst tóku þátt í verkefninu?

„Skógurinn á sér sögu sem tengist skólasamfélaginu á Selfossi. Nemendur þar hófu gróðursetningu á þessum reit fyrir rúmlega sextíu árum og því er tilvalið að halda áfram að skrifa söguna. Að okkar mati var skógurinn góður vettvangur til að hefja verkefnið, þ.e.a s. hlutlaust svæði sem nemendur beggja skólastiga gátu sameinast um. Í upphafi var markmiðið að allir leik- og grunnskólar Selfoss tækju þátt í verkefninu ásamt Fjölbrautaskóla Suðurlands. Það geta verið margar ástæður fyrir því að Álfheimar og Vallaskóli eru einu skólarnir sem taka þátt í Gullunum í grenndinni. Ein þeirra gæti verið að ég sem verkefnastjóri sá um að skipuleggja og framkvæma verkefnið fyrir Álfheima og Vallaskóla en það hefur komið fram í viðtölum við kennara hversu gott það er að þurfa ekki að sjá um skipulagningu og undirbúning. Það má einnig vera að það hefði verið betra að reyna að fá hina inn í verkefnið þegar reynsla væri komin á það. Einnig tel ég að stuðningur og áhugi skólastjórnenda í Vallaskóla og Álfheimum hafi orðið til þess að verkefnið í þessum skólum varð að veruleika. Þessu er svolítið erfitt að svara.“

Símenntun hefur verið ríkur þáttur í starfsemi verkefnisins. Hvers vegna og hverju hefur það skilað verkefninu?

Eins og fram kom sáu verkefnastjórar um skipulagningu og framkvæmd verkefnisins en við vildum virkja kennarana og gera þá öruggari í að miðla þekkingu til nemenda bæði í orði og í verki. Á námskeiðunum hafa kennarar meðal annars lært að tálga, hvernig grisja eigi skóg eða kljúfa við og þeir hafa einnig fræðst um fugla og lifnaðarhætti þeirra. Með þátttöku sinni á námskeiðunum höfðu kennarar orð á því hvað þeir hefðu lært mikið á því að fá að taka þátt í þessu og upplifa á eigin skinni hvað þátttökunám er mikilvægt fyrir nemendur. Að okkar mati skiluðu þessi námskeið sér með auknum skilningi og áhuga kennaranna á verkefninu.“

Hafa verið gerðar úttektir eða rannsóknir á árangri verkefnisins, t.d. með viðtölum við starfsfólk og börnin? Hvaða árangur er þá sýnilegastur meðal þátttakenda? Hvað segja börnin sjálf?

Hér er nemandi frá Landbúnaðarháskóla Íslands að leggja inn verkefni. Ljósmynd: Anna Gína Aagestad„Ég hef reglulega sent út spurningarlista til kennara sem taka þátt í verkefninu og einnig gerði ég eigindlega rannsókn í áfanga sem ég tók í meistaranámi við Kennaraháskóla Íslands. Það sem meðal annars hefur komið fram er að það ríkir ánægja með samstarfið milli skólanna og hefur verkefnið aukið samvinnu og jákvæðni þeirra á milli. Kennararnir telja að útikennsla sé góð kennsluaðferð til þess að stuðla að samfellu milli skólastiga og nefndu hversu gott það væri fyrir börnin að þekkja bæði önnur börn og kennarana við upphaf grunnskólagöngu.“

„Það getur verið gott fyrir þau börn sem eru óörugg og kvíðin að byrja í grunnskólanum. Kennararnir tóku eftir því að börn sem tóku þátt í verkefninu í leikskóla hefðu meiri þekkingu á náttúrunni og væru duglegri að nota náttúrulegan efnivið en börn úr leikskólum sem eru ekki þátttakendur í verk­efn­inu. Einnig kom fram að grunnskólanemendur væru duglegri að nýta sér skóginn á skólalóðinni til leiks eftir að þeir hófu þátttöku í Gullunum í grenndinni.“

Börnin mæla snjódýpt. Ljósmynd: Anna Gína Aagestad„Kennurunum þótti verkefnin sem lögð eru fyrir börnin henta báðum skólastigum og samræmast kennsluaðferðum beggja skólanna ásamt því að þau tengdust öllum grunnþáttum í aðal­nám­skrám leik- og gunnskóla. Það kemur kenn­ur­un­um á óvart hvað nemendur læra margt um nær­samfélagið og náttúruna með litlum verk­efn­um og hvað þeir eru áhugasamir um þau. Í við­töl­un­um við kennarana kom fram að börn sem eiga við hegðunar- og samskiptaörðugleika að etja njóta sín betur þegar þau eru úti í nátt­úr­unni og eru jafnvel sterkustu þátt­tak­end­ur­nir í verkefnunum sem unnin eru í skóginum. Kenn­ur­un­um fannst einnig félags- og samskiptafærni barnanna eflast í skóginum og tóku eftir því að vináttubönd mynduðust á þvert á skólastigin. Mikið upp­lif­unar­nám á sér stað úti í náttúrunni og margt sem vekur forvitni þeirra leiðir til frekari samskipta í leit þeirra að þekkingu. Það hafa ekki verið gerðar skipulagðar kannanir meðal barnanna en leikskólabörnin hafa gert mat á skólastarfinu og þar hafa Gullin í grenndinni komið vel út. En eins og einn nemandi sagði eitt sinn er hann sat og tálgaði: „Þetta er bestasti dagur lífs míns.“ Það segir margt um líðan barnanna í skóginum.“

Hverjir eru þá helstu kostir verkefnisins? Hvernig kemur það að gagni við almenna kennslu í skólanum, kennslu í ólíkum fögum o.s.frv.?

Þessi mynd var tekin við undirritun samstarfssamningsins 6. maí. F.v. Árni Eiríksson, oddviti Flóahrepps, Íris Grétarsdóttir, verkefnisstjóri Flóaskóla, Gunnlaug Hartmannsdóttir, skólastjóri Flóaskóla, Erla Björg Aðalsteinsdóttir, fulltrúi Skógræktarfélags Villingaholtshrepps, Anna Gína Aagestad, verkefnisstjóri Krakkaborg, Guðbjörg Hólm Þorkelsdóttir, leikskólastjóri Krakkaborg, og Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar„Kostirnir eru margir en það sem stendur upp úr að mínu mati er upplifun, samvera, tækifæri til að vera úti í náttúrunni og læra um hana og á hana með því að vera þátttakendur í eigin námi. Kennarar beggja skólastiga kynnast og fá innsýn í kennsluaðferðir hver annars ásamt því að aukin samskipti og samvinna verður á milli skólanna. Verkefnin tengjast námskrám beggja skólastiga og eru þau þverfagleg. Til dæmis eru í einni ferð lögð inn í ný orð í orðaforðann. Það getur reynt á stærðfræðikunnáttu, læsi, samskipti og lýðræði svo eitthvað sé nefnt. Það kom fram í viðtölum við kennarana að þeir eru duglegri að fara út með börnin eftir að hafa tekið þátt í Gullunum í grenndinni og að það er meiri regla og festa á útikennslunni í grunnskólanum. Veðrið hefur nefnilega oft hamlað því að nemendur færu út. En eftir að þau hófu þátttöku í Gullunum í grenndinni er alltaf farið í ferðirnar, hvernig sem viðrar.“

Hefur verkefnið verið kynnt út á við með einhverjum hætti og ef svo er, hvar hefur það verið gert og hvernig?

„Verkefnið hefur verið kynnt á fjölbreyttum vettvangi s.s. stóra leikskóladeginum í Reykjavík, skóladegi Árborgar, á starfsdögum í leikskólum á Selfossi og víðar, hjá samtökum áhugamanna um útikennslu svo eitthvað sé nefnt og þá aðallega í formi fyrirlestra.“

Væri mikilvægt að fleiri skólar og sveitarfélög kæmu á sambærilegu verkefni?

„Já ég tel það afar mikilvægt og hafa kostir þess komið fram hér að ofan. En hver og einn getur sniðið verkefnið að því umhverfi sem skólarnir eru í. En með þátttöku í Gullunum í grenndinni fá börnin tækifæri til þess að stunda lýðræðisleg vinnubrögð, bera virðingu fyrir náttúrunni, vera læs á umhverfi sitt og vinna fjölbreytt verkefni sem koma inn á alla grunnþætti í aðalnámskrám bæði leik- og grunnskóla. Ég tel að með þátttöku í Gullunum í grenndinni fái börnin tækifæri til að tengjast náttúrunni traustum böndum, læri að virða hana og meta og hafi upplifað ánægju af því að dvelja úti. Það geti orðið til þess að auka áhuga þeirra á náttúru og útivist í framtíðinni.“

Spurningar: Ólafur Oddsson
Svör: Anna Gína Aagestad
Sett á vef: Pétur Halldórsson