Trjáræktarklúbburinn heldur aðalfund sinn í húsakynnum Skógræktarinnar á Mógilsá miðvikudagskvöldið 5. júní kl. 20. Á fundinum flytur Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur erindi um stöðu kynbótarannsókna í skógrækt á Íslandi.
Barkarbjöllur hafa herjað mjög á rauðgreni í austanverðri Evrópu undanfarin misseri og meðal annars leikið grenið hart víða í Tékklandi og Slóveníu til dæmis. Tíðari stormar, þurrkar og hitabylgjur hafa veikt mótstöðuafl greniskóganna en vonast er til að aukin blöndun trjátegunda í skógunum geri kleift að rækta rauðgreni áfram.
„Það er gott fyrir jörðina að planta trjám,“ sögðu nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn á föstudag þegar gróðursett var á Hafnarsandi í Ölfusi í tilefni af því að Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála.