Örn Hreinsson fjallagarpur við birkiplöntuna í Útigönguhöfða sem nú vex hæst birkitrjáa yfir sjó á Í…
Örn Hreinsson fjallagarpur við birkiplöntuna í Útigönguhöfða sem nú vex hæst birkitrjáa yfir sjó á Íslandi svo vitað sé. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Með hlýnandi loftslagi nær birki að vaxa ofar í hlíðum dala og fjalla, jafnvel á hálendi landsins. Birki sem vex í 624 metra hæð yfir sjó í Austurdal í Skagafirði hefur nú misst Íslandsmeistaratitil sinn því fundist hefur lifandi birkiplanta í 660-680 metra hæð í Útigönguhöfða á Goðalandi.

Um helgina rakst Hreinn Óskarsson, sviðstjóri hjá Skógræktinni, á birki sem vex við afar erfið skilyrði hátt í hlíðum Útigönguhöfða á Goðalandi. Grófar mælingar á staðnum gáfu til kynna að birkið kynni að vaxa ofar til fjalla en önnur birkitré á Íslandi. Eftir að staðsetning plöntunnar var skoðuð nánar af Birni Traustasyni á Mógilsá sem notaði nákvæmt hæðarlíkan frá Arctic DEM til að áætla hæð yfir sjó, kom í ljós að vaxtar­staður birkisins er í um 660-680 metra hæð yfir sjó.  Hæsti vaxtar­staður birkis á Íslandi hefur áður verið talinn vera í Stórahvammi í Austurdal í Skagafirði en þar vex birki í 624 metra hæð yfir sjávarmáli.

Vetrarveðrin og snjóleysið í vetur hefur leikið Íslandsmeistarann nýkrýnda grátt en ef vel er gáð sjást fagurgræn birkiblöð í mosaþembunni sem sýna að bikið er sprelllifandi. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonBirkiplantan í Útigönguhöfða gæti verið 15-20 ára gömul og hefur fræið sem hún óx upp af borist með vindum upp hlíðar Útigönguhöfða. Lítur birkið út eins og dæmigert „trjámarkatré“, þ.e. stakt tré sem vex ofan skógarmarka. Trjá­mörk eru talin efstu mörk þess sem tré geta lifað. Að birki sé farið að vaxa í slíkri hæð yfir sjó eru glögg merki um hlýnun síðustu áratuga og þær loftslagsbreytingar sem til eru komnar af manna völdum. 

Skógar á Þórsmörk og Goðalandi hafa verið friðaðir fyrir beit síðustu áratugi og í umsjá Skógræktarinnar, en bændur í Fljótshlíð og kirkjurnar á Breiðabólstað og Odda afsöluðu sér beitarrétti á afréttunum árin 1920 og 1927. Síðan hafa skógar bæði hækkað, margfaldast að flatarmáli og breiðst út upp fjallshlíðar. Fylgst verður með trénu í Útigönguhöfða framvegis, það staðsett með nákvæmari hætti og hæð vaxtarstaðarins yfir sjó mæld með betri tækjum.

Þó birkið hafi litið illa út nú í sumarbyrjun eftir snjóléttan og stormasaman vetur, var lauf byrjað að spretta úr stofnum þess og mun það án efa skrýðast laufi þó ekki muni það verða hávaxið á þessum berangurslega stað í næsta nágrenni eldfjalla og jökla.

Texti: Hreinn Óskarsson