Heimskra manna ráð væru að mæla með skógrækt til að réttlæta áframhaldandi mengun, hvað þá til að au…
Heimskra manna ráð væru að mæla með skógrækt til að réttlæta áframhaldandi mengun, hvað þá til að auka mengun, til dæmis með auknum flugferðum. Mikil meðvitund er um þetta meðal skógræktarfólks innan lands og utan. Það vill ekki feta í fótspor páfans með syndaaflausnum. Aðalatriðið er að draga úr losun en jafnframt er mikilvægt að binda kolefni. Ljósmynd af blómstrandi grenitré: Pétur Halldórsson
[Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 5. júní 2019 en er hér í örlítið lengri gerð auk mynda]

Jafnvel þótt ræktaður skógur kunni að verða á fáeinum prósentum landsins eftir nokkra áratugi hverfa engin fjöll. Alls staðar verður um ókomna tíð stutt að fara úr skjóli og hlýindum skógarins út í næðinginn þar sem sést í allar áttir. Skógarbændur sitja ekki eftir með digra sjóði þegar plönturnar eru komnar í jörð. Gróðinn verður komandi kynslóða og þjóðarbúsins í framtíðinni sem fær fjár­fest­ing­una margfalda til baka, bæði í formi kolefnisbindingar og ýmiss konar viðarafurða.

Ögmundur Jónasson skrifar í Morgunblaðið 26. maí og spyr nytsamra spurninga, svo sem hvort kol­efnis­jöfnun ógni náttúrunni. Nytsamar spurningar þarfnast nytsamra svara.

Fyrr í mánuðinum sótti ég fund á vegum Forest Communicators Network, samstarfsnets fólks sem vinnur að fræðslu- og kynningarmálum fyrir skógarstofnanir og -fyrirtæki í Evrópu. Tvo fundarmanna ræddi ég við sem vinna að kolefnisjöfnunarverkefnum með skógrækt. Báðir lögðu þeir áherslu á að slík skógrækt mætti alls ekki vera aflátssala. Krefjast yrði af þeim sem vildu kolefnisjafna að þeir hefðu stefnu um að draga úr losun. Kolefnisjöfnunin kæmi á móti þeirri losun sem eftir stæði og erfiðara eða tímafrekara væri að láta af.

Þetta er andinn í þeirri kolefnisjöfnun sem rætt er um að ráðist verði í með skógrækt. Aflátssala sem við­héldi óbreyttri losun væri álitshnekkir fyrir skógrækt og kæmi illa niður á henni. Því er ólíklegt að skóg­ræktar­fólk vilji ráðast í slíka starfsemi svo nokkru nemi. Aflátsbréf páfa forðum áttu að forða hrelldum sálum frá hreinsunareldi, að því er haldið var að lýðnum. Aðalmarkmið þeirra var þó að afla fjár til stór­framkvæmda í Róm. Þeim er að þakka að Péturskirkjan stendur í Páfagarði.

En aflátssala kolefnisbindingar með skógi forðar okkur ekki frá loftslagsbreytingum. Meginmarkmiðið er auðvitað að draga úr losun. Loftslagssérfræðingar eru þó flestir á einu máli um að jafnframt verði að binda eitthvað af því kolefni sem þegar hefur verið losað út í andrúmsloftið. Aðgerðir þurfa því að vera í hvoru tveggja fólgnar, að draga úr losun og binda koltvísýring úr andrúmsloftinu. Til hins síðarnefnda gagnast skógrækt mjög vel. Heimskra manna ráð væru að mæla með skógrækt til að halda mætti áfram að menga, hvað þá til að auka mengun, til dæmis með auknum flugferðum. Mikil meðvitund er um þetta meðal skógræktarfólks innan lands og utan. Það vill ekki feta í fótspor páfans með syndaaflausnum.

Svo hægt sé að kolefnisjafna þarf fyrst að taka saman og meta losun. Sú vinna eykur vitund þess sem losar og hvetur hann til að minnka losunina. Hugmyndin er sú að kaupa megi losunarheimildir á móti þeirri losun sem erfitt er að draga úr eða hætta strax. Í stað vindrafstöðvanna lengst til hægri á myndinni mætti setja nýskógrækt. Hvort tveggja er mótvægisaðgerð sem getur gefið af sér seljanlegar mótvægiseiningar. Vindmylla fækkar losuðum kolefnistonnum með því að leysa af hólmi t.d. kolaorkuver. Skógrækt fjölgar bundnum kolefnistonnum með því að binda koltvísýring í viði, rótum og jarðvegi. Mynd: Australia‘s Carbon Marketplace/SkógræktinÍ grein Ögmundar er sagt að skógarbændur fái greitt fyrir hverja gróðursetta plöntu á jörðum sínum, að hrísla í jörð þýði krónur í vasann. Með þessu er teygður sannleikurinn því þetta má skilja sem svo að þarna sé gróðastarfsemi fyrir landeigendur. Vissulega fylgja samningum um skógrækt á lögbýlum framlög sem duga fyrir kostnaði við gróðursetningu trjáplantna og framkvæmdum sem henni tilheyra. En bóndinn leggur land sitt undir skóginn til langs tíma og það er ekki svo að hann sitji eftir með digra sjóði þegar plönturnar eru komnar í jörð. Gróðinn verður komandi kynslóða og þjóðarbúsins í framtíðinni sem fær fjárfestinguna margfalda til baka, bæði í formi kolefnisbindingar og ýmiss konar viðarafurða.

Með nýsamþykktum lögum um skógrækt er sett sú skylda á Skógræktina að gera lands- og landshlutaáætlanir í skógrækt. Í þessum áætlunum verður skýrar kveðið á um en áður hvar og hvernig skuli rækta skóg. En jafnvel þótt ekki hafi verið slík ákvæði fram að þessu hefur skógrækt á lögbýlum verið bundin margvíslegum reglum sem snerta skipulag, landgerðir, menningarminjar, ræktar­land, náttúruvernd og fleira. Skógrækt sem nýtur opinberra styrkja er rækilega skipulögð af skóg­fræð­ing­um og háð framkvæmdaleyfum.

Í grein Ögmundar er gefið í skyn að skógrækt á lögbýlum fari fram með ólíkum hætti og alúðarstarf skóg­ræktar­félaga. Ef betur er að gáð má fullyrða að starf skógarbænda sé í langflestum tilfellum alúðarstarf einnig. Hugað er að útsýni, ásýnd skógræktarsvæða, skógarjöðrum og gjarnan skilin eftir svæði þar sem skógarbóndinn vill ekki breyta gróðurfari með skógrækt. En hvað snertir títtnefnd berjalönd verður að hafa í huga að þar sem búfjárbeit er aflétt breytast berjalönd og lyngmóar yfirleitt fljótt í annars konar gróðurlendi. Birki og víðir sáir sér inn í svæðin og hávaxnar blómplöntur, jarðarber, hrútaber, bláber og grastegundir taka við. Í skógi má rækta aðalbláberjalyng og fá mikla uppskeru. Krækilyng sækir nú ofar í landið með hlýnandi loftslagi.

Hér sést gróf skipting á losun CO<sub>2</sub> í heiminum 2010 eftir atvinnugreinum. Í sumum greinum má ná skjótum árangri, t.d. með því að stöðva skógareyðingu, breyta landbúnaði, nota timbur í stað stáls og steinsteypu í byggingar, taka upp nýja orkutækni o.fl. Lengri tíma tekur að breyta greinum eins og iðnaði og flugi. Því er kolefnisbinding nauðsynleg, til dæmis með skógrækt, sérstaklega meðan breytingarferlið stendur. Heimild: IPCC 2014Hætt er við að sérfræðingum Skógræktarinnar og skógarbændum þyki að sér vegið með tilvitnun Ögmundar í gestgjafa hans. Því er hér snúist til varnar. Á greininni er að skilja að gestgjafinn eigi sumarbústað á skógarjörð á Norðurlandi og sjái nú minna og minna til fjalls vegna skógarins sem vex upp í hlíðinni fyrir ofan. Orðrétt er haft eftir gestgjafanum um við­kom­andi skógarbónda að hann fái „styrk fyrir hverja plöntu sem hann kemur í jörð. Og því miður er hann þannig sinnaður að hann gildir einu hvar gróðursett er. Og bókhaldara fjárveitandans er líka sama. Hann telur bara trén“.

Sem fyrr segir skipuleggja lærðir skógfræðingar alla skógrækt sem nýtur opinberra framlaga. Það er alls ekki svo að hjá Skógræktinni sé ein­fald­lega einhver bókhaldari sem gildi einu hvar gróðursett sé og telji bara tré. Þetta eru ómak­leg ummæli í garð fólks sem vinnur störf sín af alúð og samviskusemi samkvæmt lögum, reglum og skipulagsskilmálum. Ómaklegt er líka að segja að landeigendum sé sama hvar gróður­sett sé í land þeirra því skógarbændur hafa skýr markmið með skógræktarsamningum sínum. Skógrækt á Íslandi er stunduð með gát.

Sannarlega er nauðsynlegt að skoða alla hluti gagnrýnum augum. Skógrækt á Íslandi hefur þurft að þola harða gagnrýni í heila öld og meira en það. Greinin hefur þróast undir þessari gagnrýni og haft gott af því. Ræktaður skógur er nú á tæpu hálfu prósenti landsins. Það eru öll ósköpin. Jafnvel þótt ræktaður skógur kunni að verða á fáeinum prósentum landsins eftir nokkra áratugi hverfa engin fjöll. Alls staðar verður um ókomna tíð stutt að fara úr skjóli og hlýindum skógarins út í næðinginn þar sem sést í allar áttir.

Í kolefnisskógrækt sem fram undan er á Íslandi verða höfð í heiðri þau mikilvægu skilaboð sem meðal annars hafa borist frá formanni Loftslagsráðs og fleirum innan lands og utan að í öllum aðgerðum gegn röskun loftslagsins sé aðalatiðið að draga úr losun gróðurhúsalofts. Kolefnisskógrækt á Íslandi verður ekki á formi aflátsbréfa. Hún verður framlag í baráttunni gegn þeirri vá sem steðjar að jörðinni.

Pétur Halldórsson
kynningarstjóri Skógræktarinnar