Hinn árlegi jólamarkaður í Vaglaskógi verður haldinn í húsakynnum Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal sunnudaginn 9. desember kl. 13.-17. Vegna veðurs og ófærðar þurfti að fresta markaðnum en hann hafði áður verið auglýstur 1. desember. Fjölbreyttur varningur handverksfólks úr sveitinni verður til sölu en einnig jólatré, greinar, arinviður og fleira úr skóginum.
Í skógi sem ræktaður er í 200 ár má binda nærri tvöfalt meira kolefni með því að nytja skóginn í stað þess að láta hann vaxa óáreittan. Athuganir á samanlögðum bindingaráhrifum nytjaskógar í samanburði við ónytjaðan skóg sýna að nytjaskógrækt og kolefnisbinding fer mjög vel saman.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um rótarsjúkdóma sem séu nýjasta ógnin í skógum landsins. Fundist hafi phytopthora-rótarsjúkdómur í gróðrarstöð hérlendis en ekki vitað til þess að hann hafi borist út í náttúruna. Rætt er við Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðing hjá Skógræktinni, sem vill að reglugerð um innflutning plantna verði endurskoðuð. Sjúkdómar sem hafi verið að breiðast út um Evrópu gætu orðið ógn í ræktun runna og trjáa hérlendis.
Út er komið dagatal Skógræktarinnar 2019 með ljósmyndum af íslenskum skógarfuglum. Dagatalinu er dreift til skógarbænda, samstarfsfólks Skógræktarinnar, stofnana og fyrirtækja.
Fagráðstefna skógræktar 2019 verður haldin á Hallormsstað 3.-4. apríl. Landnotkun og loftslagsmál verða meginviðfangsefni eða þema ráðstefnunnar að þessu sinni og yfirskriftin Öndum léttar – landnotkun og loftslagsmál. Frestur til að skila inn tillögum um fyrirlestra og veggspjöld er til 15. janúar.