Frá jólamarkaðnum á Vöglum 2016. Ljósmynd: Benjamín Örn Davíðsson
Frá jólamarkaðnum á Vöglum 2016. Ljósmynd: Benjamín Örn Davíðsson

Hinn árlegi jólamarkaður í Vaglaskógi verður haldinn í húsakynnum Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal sunnudaginn 9. desember kl. 13.-17. Vegna veðurs og ófærðar þurfti að fresta markaðnum en hann hafði áður verið auglýstur 1. desember. Fjölbreyttur varningur handverksfólks úr sveitinni verður til sölu en einnig jólatré, greinar, arinviður og fleira úr skóginum.

Jólamarkaðurinn á Vöglum hefur nú fest sig í sessi. Hann verður nú haldinn í þriðja sinn og má búast við góðri aðsókn eins og fyrri ár. handverksfólk í Þingeyjarsveit hefur tekið þessu tækifæri fagnandi og flykkist á markaðinn með afurðir sínar sem eru af ýmsum toga, bæði listmunir, nytjamunir og góðgæti.

Skógræktin selur líka það sem skógurinn gefur. Hagstæð tíðin í haust hefur nýst vel til að safna eldiviði með grisjun birkiskóganna og undanfarið hefur starfsfólk skógarvarðarins á Norðurlandi unnið að því að fella jólatré og útbúa greinar og annað skreytingarefni fyrir markaðinn. Sömuleiðis verða til sölu plattar, kyndlar og fleira úr viðnum sem unnið er úr heimafengnum viði.

Eins og fyrri ár setja nemendur úr Stórutjarnaskóla punktinn yfir i-ið í jólastemmningunni með kaffisölu. Ágóðinn rennur í ferðasjóð þeirra.

Markaðurinn verður í starfstöð Skógræktarinnar á Vöglum sem er í miðjum Vaglaskógi. Nú er fært báðum megin að, bæði yfir brúna á Fnjóská við Hróarsstaði í Fnjóskadal og afleggjarann úr Ljósavatnsskarði við Háls. Markaðurinn hefst klukkan 13 og stendur til kl. 17.

Nú hefur Vaglaskógur skrýðst vetrarbúningi og skartar sínum fegursta vetrarskrúða. Sjáumst í jólaskapi í skóginum 9. desember!

Skógræktin Vöglum.