Í undirbúningi er á Alþingi frumvarp um breytingar á tekjuskatti sem gera myndu greiðslur til bindingarverkefna undanþegnar tekjuskatti. Frádráttarbær yrðu framlög til bindingar sem næmu allt að 0,84 prósentum tekna.
Stór hluti Íslands er rofið land. Víðerni landsins eru verðmæti og um þau þarf að standa vörð eins og önnur náttúruverðmæti. Engum blöðum er um það að fletta að hingað sækir fólk hvaðanæva úr heiminum til að njóta náttúrunnar og ekki síst víðlendra svæða þar sem lítið eða ekkert sést af mannvirkjum. Ólíklegt má telja að víðerni Íslands hefðu minna aðdráttarafl fyrir ferðamenn ef þau væru gróin.
Kjarnaskógur á Akureyri laðar til sín gönguskíðafólk og þeim sem æfa skíðagöngu finnst gott að stunda æfingar sínar í skjólinu sem skógurinn veitir. Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2 um þá aðstöðu sem boðið er upp á til skíðagöngu í Kjarnaskógi.
Við Aalto-háskólann í Finnlandi hefur verið þróað nýtt efni í klæði sem gæti leyst af hólmi önnur mengandi efni, bæði gerviefni en líka náttúruefni sem hafa mikil umhverfisáhrif eins og viskós og bómull. Efnið var notað í kjól sem Jenni Haukio, eiginkona Saulis Niinistös Finnlandsforseta klæddist nýverið opinberlega.
Erfðafræðilegum gæðum trjáa sem nota á til að binda kolefni virðist iðulega vera of lítill gaumur gefinn. Stundum virðist markmiðið um kolefnisbindingu jafnvel vera látið víkja fyrir markmiðum á borð við að nota einungis innlendan efnivið eða að nota sem flestar tegundir. Þetta er niðurstaða vísindagreinar sem kom út fyrir nokkru. Varasamt sé að láta aukamarkmið bitna á þeirri kolefnisbindingu sem möguleg er í skógrækt og nýta verði bestu þekkingu á hverjum tíma við val á tegundum, kvæmum og kynbættum efniviði.