Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Jenni Haukio, eiginkona hans, í móttöku sem haldin var 6. desembe…
Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Jenni Haukio, eiginkona hans, í móttöku sem haldin var 6. desember, daginn sem Finnar fagna sjálfstæði sínu. Kjóll hennar er saumaður úr efni sem gert er eingöngu úr Ioncell-klæði unnu úr birkitrefjum. Ljósmynd: Vesa Moilanen/Lehtikuva

Við Aalto-háskólann í Finnlandi hefur verið þróað nýtt efni í klæði sem gæti leyst af hólmi önnur mengandi efni, bæði gerviefni en líka náttúruefni sem hafa mikil umhverfisáhrif eins og viskós og bómull. Efnið var notað í kjól sem Jenni Haukio, eiginkona Saulis Niinistös Finnlandsforseta klæddist nýverið opinberlega.

Finnar hafa löngum treyst á skóga sína til að komast af en skógarnir eru þeim líka innblástur til margvís­legra hluta. Tíska er reyndar ekki það fyrsta sem okkur dettur í hug þegar Finnland er nefnt þótt við þekkjum líklega flest Marimekko-vörumerkið. En nú fær Finnland athygli tískuheimsins því vera kann að þar hafi verið þróað framtíðarefni í fatnað okkar. Til að kynna þetta nýja efni var ákveðið að leita til forseta­frúar­inn­ar og hanna fyrir hana kjólk sem saumaður yrði úr efninu.

Frá þessu segir í frétt á vef Aalto-háskólans. Fjölbreyttur hópur fólks við háskólans stóð að hönnun og gerð kjólsins sem segja má að gerður sé úr finnskum birkitrjám. Tæknin og efnið nýja er sagt sjálfbært og kallast Ioncell.

Tilefnið sem forsetafrúin notaði til að klæðast þessum nýstárlega kjól var móttaka sem haldin var í upphafi jólaföstu, 6. desember, þegar Finnar fagna sjálfstæði sínu sem þeir hlutu fyrir 101 ári. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Helsinki. 

Ioncell - visthæfar trefjar í klæði

Aðferðin við framleiðslu efnisins er í raun samstarfsverkefni Aalto-háskólans og Helsinki-háskóla. Ioncell-efninu  er ætlað að umbylta fataframleiðslu í heiminum. Hágæðatrefjar eru búnar til úr nokkrum hrá­efn­um, ferskum viði, endurunnum dagblöðum eða pappa og gömlum bómullarefnum.

Sem fyrr segir hefur bómullarræktun og -framleiðsla mikil umhverfisáhrif enda fylgir henni mikil notkun á eiturefnum og ýmsum mengandi kemískum efnum en líka olíu. Viskós er vissulega unnið úr trjám en til að framleiða það þarf sömuleiðis mikið af óæskilegum mengandi efnum. Ioncell virðist vera freistandi vist­hæfur valkostur við þessi fyrrnefndu efni og þetta nýja efni má sömuleiðis endurvinna. Í frétt Aalto-háskólans segir að efnið henti mjög vel í fatnað.

Pirjo Kääriäinen, fagprófessor við Aalto-háskólann segir að klæði sem framleitt er úr Ioncell-efninu sé mjúkt, hafi fallegan blæ og falli vel. Mikilvægast sé þó að þetta sé góður valkostur fyrir umhverfið.

Stúdentar við skólann hafa lagt sitt af mörkum í teyminu sem unnið hefur að þróun efnisins ásamt sér­fræð­ing­um í viðarvinnslu, efnafræði, verkfræði og einnig textíliðnaði og tískuhönnun. Nú þegar er komin í gang tilraunaframleiðsla þar sem unnið er með ýmsar útgáfur af klæði úr Ioncell-efninu. Ein afurðin er efnið sem notað var til að sauma kjólinn fyrir Jenni Haukio forsetafrú.

Í frétt háskólans er bent á að virðing fyrir náttúrunni sé Finnum í blóð borið og kynjajafnrétti hafi þar lengi verið í hávegum haft. Úr þeim jarðvegi hafi komið innblásturinn að hönnun kjólsins fyrir forsetafrúna. Það falli vel að tísku-, fata- og textílhönnunarsviði Aalto-háskólans sem sé þekkt um allan heim.

 

Þetta þróunarstarf Finna hefur vakið athygli og til dæmis hefur alþjóða viðskiptaráðið World Economic Forum birt myndband á Facebook. 

Texti: Pétur Halldórsson