Úr Kjarnaskógi nú í vikunni. Skjámynd úr frétt Stöðvar 2
Úr Kjarnaskógi nú í vikunni. Skjámynd úr frétt Stöðvar 2

Kjarnaskógur á Akureyri laðar til sín gönguskíðafólk og þeim sem æfa skíðagöngu finnst gott að stunda æfingar sínar í skjólinu sem skógurinn veitir. Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2 um þá aðstöðu sem boðið er upp á til skíðagöngu í Kjarnaskógi.

Í fréttinni er rætt við Jóhannes Kárason sem stundað hefur skíðagöngu um áratugaskeið og segir að það sé lífsfyllingin hans að komast á skíði. Munurinn á skóginum og öðrum gönguskíðasvæðum segir hann að sé skjólið sem breyti öllu. Í skóginum sé hægt að ganga í næstum öllum veðrum, bara ef snjór er á svæðinu á annað borð, öfugt við það sem sé þegar komið er til fjalla.

Skógræktarfélag Eyfirðinga sér um að troða skíðagöngubrautir í Kjarnaskógi og segirst Ingólfur Jóhanns­son, framkvæmdastjóri félagsins, merkja greinilega fjölgun þeirra sem stunda skíðagöngu í skóg­in­um og spennan þeirra á meðal sé mikil þegar veðurspáin lofar góðu. Fólk hringi í félagið, jafnvel með tveggja daga fyrirvara, til að spyrja hvort ekki verði örugglega spor í skóginum enda bjóði skógurinn upp á góðar aðstæður.

En það er ekki bara skjólið sem dregur. Jóhannes nefnir kanínurnar og fuglalífið en einnig að í Kjarnaskógi séu upplýstar brautir sem geri að verkum að skammdegið hafi engin áhrif.

Texti: Pétur Halldórsson