Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður á Fagráðstefnu 2018 í Hofi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður á Fagráðstefnu 2018 í Hofi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í undirbúningi er á Alþingi frumvarp um breytingar á tekjuskatti sem gera myndu greiðslur til bind­ing­ar­verkefna undanþegnar tekjuskatti. Frádráttarbær yrðu framlög til bindingar sem næmu allt að 0,84 prósentum tekna.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hefur unnið að undirbúningi frumvarpsins í samstarfi við ráðherra eins og fram kemur í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag. Þar kemur fram að margir þingmenn flytji frumvarpið með honum og sé það til marks um þverpólitískan vilja á Alþingi.

Grein Ara Trausta í FréttablaðinuHann bendir á að mikilvægi kolefnisbindingar í jarðvegi og gróðri sé alþekkt. Hér á landi sé unnt að binda milljónir tonna af kolefni úr kolefnis­gös­um (gróðurhúsalofttegundum) á ári, þegar fram í sækir. Losun nú á Íslandi, að slepptu útstreymi úr framræstu eða illa förnu landi, frá flugvélum og orkufrekum iðnaði, séu tæplega 5 milljónir tonna á ári. Íslendinga bíði margþætt verkefni við að minnka alla losun og binda kolefni að auki.

Þá segir Ari Trausti að ríkið leiki stórt hlutverk í þessum efnum, ásamt sveitarfélögum og al­menn­ingi. Að auki verði fyrirtæki, stofnanir og fé­lög að taka til höndum. Samanlagt séu framlög allra annarra en ríkisins, þungvægust í andófinu gegn hraðri loftslagshlýnun. Ríkisvaldið hvetji vissulega til dáða í ótal tilvikum, liðki fyrir og leggi fram fé til margvíslegra verkefna, ríkis­stjórnir setji fram stefnur og markmið í nafni samfélagsins.

Tillagan sem nú er í vinnslu á Alþingi er breyt­ing­ar­til­laga við lög um tekjuskatt þar sem gert er kleift að ívilna lögaðilum sem leggja fé til kolefnisbindingar með til dæmis skógrækt eða endurheimt votlendis. Í tillögunni eins og hún lítur út nú er gert ráð fyrir að aðilar í atvinnurekstri geti talið fram greiðslur til bindiverkefna, allt að 0,85% tekna, sem verða undanþegnar tekjuskatti.

Ari Trausti segir að í reglugerð verði kveðið nánar á um kröfur um upplýsingaskil þegar gerð er grein fyrir framlögum af þessum toga.  Meðal annars sé æskilegt að framlögin séu liður í umhverfis- eða lofts­lags­stefnu þess sem bindur kolefni með þessum hætti. Hann vonar að margir nýti sér þessa ívilnun þegar til­lag­an verður að veruleika.

Fréttablaðið 17. desember 2018

 

Texti: Pétur Halldórsson