Trjáplanta sýkt af Phytophthora-sjúkdómi í íslenskri gróðrarstöð. Ekki er vitað til þess að sjúkdómu…
Trjáplanta sýkt af Phytophthora-sjúkdómi í íslenskri gróðrarstöð. Ekki er vitað til þess að sjúkdómurinn hafi borist út í náttúruna hér en hættan er fyrir hendi með innflutningi plantna. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um rótarsjúkdóma sem séu nýjasta ógnin í skógum landsins. Fundist hafi Phytophthora-rótarsjúkdómur í gróðrarstöð hérlendis en ekki vitað til þess að hann hafi borist út í náttúruna. Rætt er við Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðing hjá Skógræktinni, sem vill að reglugerð um innflutning plantna verði endurskoðuð. Sjúkdómar sem hafi verið að breiðast út um Evrópu gætu orðið ógn í ræktun runna og trjáa hérlendis.

Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður fjallar um málið og ræðir við Halldór. Greinin er á þessa leið:

Rótarsjúkdómar eru nýjasta ógnin í skógrækt, segir í grein Morgunblaðsins

„Rótarsjúkdómar sem hafa verið að breiðast út í Evrópu eru nýjasta ógnin í ræktun trjáa og runna hér á landi,“ segir Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur hjá Skógræktinni. Hann segir að einn þessara sjúkdóma hafi fundist í gróðrarstöð hér á landi í  fyrra, en ekki er talið að smitaðar plöntur hafi farið í dreifingu. Halldór kallar eftir endurskoðun á reglugerð um innflutning plantna.

Kartöflumygla þekkt dæmi

Umræddir rótarsjúkdómar eru af ættkvísl sem á fræðiheitinu kallast Phytophthora. Þeir voru lengi  skilgreindir sem sveppasjúkdómar, en hafa nú fengið sjálfstæða greiningu að sögn Halldórs.Hann segir að hér á landi sé kartöflumygla þekkt dæmi um skaðlegan sjúkdóm þessarar tegundar.

„Við höfum staðfest dæmi frá síðasta ári um Phytophthora í trjáplöntum hér á landi,“ segir Halldór.
„Ekki er talið að þær hafi farið í dreifingu, en ég hef grun um að hingað geti verið komnar fleiri tegundir. Þessir nýju rótarsjúkdómar hafa verið að breiðast út í Evrópu og hafa farið illa með japanslerki á Bretlandseyjum, en geta farið í margar tegundir af trjám og runnum. Um er að ræða þræði sem vaxa inn í ræturnar, en geta einnig farið í stofn trjáa. Þetta er lúmskt því meðan sjúkdómurinn er í rótunum er erfitt að greina hann.“

Halldór segist lengi hafa bent á nauðsyn þess að endurskoða reglugerð um innflutning á plöntum. Í grunninn sé reglugerðin frá 1990 og þó svo að síðan hafi verið bætt í hana og hún gerð strangari hafi sjúkdómum fjölgað mjög og eins hafi flutningur á milli landa aukist verulega.

Hafa farið illa með japanslerki

„Þessir rótarsjúkdómar leggjast á alls konar gróður og hættan er sú að þeir fari með plöntum í garða eða skóga. Á Bretlandi hefur Phytophthora farið sérstaklega illa með japanslerki og þó svo að hér á landi ræktum við einkum rússalerki þá skilst mér að sjúkdómurinn geti lagst á allt lerki,“ segir Halldór.

Á fræðslufundi hjá Garðyrkjufélagi Árnesinga í síðustu viku fjallaði Halldór um skaðvalda í trjágróðri, bæði um ógnina af rótarsjúkdómum og skordýr á trjám; lirfur fiðrilda, bjöllur og ryð. Margir skaðvaldanna eru nýlegir landnemar hér á landi og er talið að sumir þeirra geti hafa borist til landsins með innfluttum plöntum.

Halldór segir að birkikemba haldi áfram að breiðast út og sé komin um allt land að Vestfjörðum undanskildum. Hún skemmi birkilauf framan af sumri, en á Suðvestur- og Suðurlandi taki birkiþéla þá við af henni. Kemban og þélan eru atkvæðamestar á höfuðborgarsvæðinu, en síður í náttúrulegu birkikjarri. Ekki er ljóst hver áhrifin verða til framtíðar. Halldór segir að bjallan asparglytta hafi farið mjög illa með víðitegundir á höfuðborgarsvæðinu, einkum viðju. Hún virðist hins vegar ekki valda miklu tjóni á alaskaösp hér á landi.

„Ofuraspir“ í fjölgun

Þar er asparryðið mun alvarlegra og hefur í nokkur ár verið unnið að því að rækta klóna sem hafa mótstöðu gegn ryðinu og eru hraðvaxta. Nú eru slíkir klónar „ofuraspa“ að fara í fjölgun og er ætlunin að byggja á þeim í framtíðinni. Asparryð hefur í mörg ár verið árvisst á Suðurlandi, en í ár var talsvert um það í Eyjafirði og austur á Héraði.

Birkifeti hefur verið samur við sig síðustu ár og m.a. lagst á bláberjalyng á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Síðustu ár hafa fiðrildalirfur farið illa með birkiskóga á Austurlandi og hafa aflaufgað trén, þar hafa tígulvefari, birkivefari og birkifeti m.a. átt hlut að máli.