Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði trjásafnið á Mógilsá formlega á skógardeginum sem haldinn var á sunnudag til að fagna hálfrar aldar afmæli Rannsóknastöðvar skógræktar. Til öryggis fór Björt úr skónum áður en hún mundaði öxina og hjó sundur snæri til að opna trjásafnið. Á fimmta hundrað manns sótti skógardaginn sem tókst afar vel í sólskini og blíðu.
í Morgunblaðinu í dag er rætt við Halldór Sverrisson, sérfræðing á Mógilsá, sem unnið hefur ötullega að því undanfarin ár að kynbæta þann efnivið alaskaaspar sem notaður er í skógrækt á Íslandi. Útlit er fyrir að komnir séu fram asparklónar sem bæði vaxa mjög vel, mynda mikinn við og eru lítt útsettir fyrir sveppasjúkdómnum asparryði.
Rannsóknastöð skógræktar Mógilsár fær talsverða athygli í fjölmiðlum þessa dagana vegna fimmtíu ára afmælis skógræktarrannsókna á Íslandi. Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar var í spjalli á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og einnig í Samfélaginu á sömu rás eftir hádegi ásamt Eddu S. Oddsdóttur, forstöðumanni á Mógilsá.
Undirbúningur fyrir skógardaginn sem haldinn verður á sunnudag í tilefni  hálfrar aldar afmælis Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá gengur vel. Sá sögulegi atburður verður á hátíðinni að gróðursett verður í fyrsta eikar­skóg­inn á Íslandi. Eikur úr 600 metra hæð í fjöllum Hessen í Þýskalandi báru fræin sem eikurnar á Mógilsá eru sprottnar upp úr. Fyrstu eikurnar voru gróðursettar í fyrra, þrífast allar vel og eru í góðum vexti.
Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, er sjötugur í dag. Hann hættir störfum í lok þessa mánaðar og hefur þá starfað við skógrækt með ýmsum hætti í ríflega hálfa öld. Skógræktin óskar Hallgrími til hamingju með daginn, þakkar honum vel unnin störf og óskar velfarnaðar.