Gestir á skógardeginum á Mógilsá kynntu sér verkefni og rannsóknir sem þar er unnið að og fengu t.d.…
Gestir á skógardeginum á Mógilsá kynntu sér verkefni og rannsóknir sem þar er unnið að og fengu t.d. að rýna í víðsjá og skoða viðaræðar og árhringi en til sýnis voru líka pöddur, leiðbeint um klippingu stiklinga, sýnt hvernig tré eru mæld og hvernig teknar eru myndir ofan í jörðina af rótum.

Ráðherra fór úr skónum til að opna trjásafnið

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði trjásafnið á Mógilsá formlega á skógardeginum sem haldinn var á sunnudag til að fagna hálfrar aldar afmæli Rannsóknastöðvar skógræktar. Til öryggis fór Björt úr skónum áður en hún mundaði öxina og hjó sundur snæri til að opna trjásafnið. Á fimmta hundrað manns sótti skógardaginn sem tókst afar vel í sólskini og blíðu.

Lögð var áhersla á að kynna almenningi starfsemina á Mógilsá þennan dag. Settur var upp fjöldi veggspjalda sem áfram verða látin hanga á stöðvarhúsinu á Mógilsá gestum og gangandi til fróðleiks. Sérfræðingar stöðvarinnar sýndu trjámælingar, rótarmyndavél, aðferðir við klippingu stiklinga og skoða mátti árhringi og viðartrefjar í víðsjá svo nokkuð sé nefnt. Gestir fengu leiðsögn um trjásafnið og þeir heppnustu fengu að taka þátt í að gróðursetja 50 eikartré þýskrar ættar í brekku ofan við stöðina.


Axel Kristinsson sem lengi hefur verið í forystu fyrir Trjáræktarklúbbinn, sagði frá skipulagi sem unnið hefur verið fyrir trjásafn á Mógilsá. Þar hafa þegar verið merkt til bráðabirgða ýmis tré en haldið verður áfram því verki, sett upp varanlegri skilti og þeim fjölgað. Þá hafa verið tekin frá svæði fyrir mismunandi trjágerðir og ættir, til dæmis einkímblaða tegundir á borð við bambus og pálma. Trjáræktarklúbburinn hefur um árabil stefnt að því að koma upp fjölbreyttu trjásafni og þá hafa félagar í klúbbnum einnig haft aðstöðu í gróðurhúsi og á ræktunarsvæði Rannsóknastöðvar skógræktar til tilraunaræktunar og uppeldis trjátegunda.


Stærstu viðburðirnir á skógardeginum á Mógilsá voru opnun trjásafnsins og gróðursetning fimmtíu eikartrjáa sem einmitt eru sprottin af starfi Trjáræktarklúbbsins með beinum og óbeinum hætti. Björt Ólafsdóttir kom á skógardaginn og ávarpaði samkomuna. Spotti hafði verið strengdur milli tveggja staura við innganginn í trjásafnið og í miðjunni höggstokkur. Ráðherra var ætlað að höggva sundur spottann með öxi og þótti vissara að fara úr háhælaskónum áður en reitt væri til höggs. Spottinn fór í sundur í fyrsta höggi og trjásafnið þar með opnað.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, veitti leiðsögn um trjásafnið. Gangan endaði í brekku ofan og vestan rannsóknastöðvarinnar þar sem grisjaður hafði verið furuskógur til að eikurnar fimmtíu gætu vaxið upp við kjöraðstæður. Fengu gestir færi á að taka þátt í gróðursetningunni og eitt trjánna setti ráðherra niður.

Slegið er á að yfir 400 manns hafi sótt skógardaginn á Mógilsá á sunnudag. Einmunablíða var þennan dag, heiðríkt og hlýtt með hægum vindi og gat fólk notið þess að fá sér ketilkaffi og lummur eða bakað pinnabrauð yfir eldi eftir að hafa fengið fræðslu um það sem fram fer á vegum Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá.


Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð og enn fleiri myndir eru í myndasafni. Þá var einnig sagt frá deginum og sýndar myndir í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins.



Jóhanna Ólafsdóttir leiðbeinir um stiklingaklippingar.">





Texti og myndir: Pétur Halldórsson