Hallgrímur fræðir starsfólk Skógræktarinnar um sögu Kjarnaskógar í rauðgrenireitnum þar sem fyrstu t…
Hallgrímur fræðir starsfólk Skógræktarinnar um sögu Kjarnaskógar í rauðgrenireitnum þar sem fyrstu tré skógarins voru gróðursett sama ár og hann fæddist, 1947.

Hefur starfað að skógrækt í ríflega hálfa öld

Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, er sjötugur í dag. Hann hættir störfum í lok þessa mánaðar og hefur þá starfað við skógrækt með ýmsum hætti í liðlega hálfa öld. Skógræktin óskar Hallgrími til hamingju með daginn, þakkar honum vel unnin störf og óskar velfarnaðar.

Morgunblaðið fjallar um afmælið í dag og þar segir:

Hallgrímur Þór Indriðason fæddist á Akureyri 16.8. 1947 og ólst þar upp. Hann var í Barnaskóla Akureyrar, lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar 1964 en útskrifaðist sem skógtæknifræðingur frá Evenstad Skogskole í Noregi 1968. Þá lauk hann prófi frá sama skóla í landnýtingu og svæðaskipulagi 1975. Árið eftir starfaði hann hjá Oslóarborg við útivistarskógrækt. Hann stundaði nám í vefjaræktun plantna við Bristol Polytechnic í Englandi 1988.

Hallgrímur hóf sumarvinnu við gróðursetningar í Kjarnaskógi hjá Skógræktarfélaginu er hann var 14 ára. Eftir nám í landnýtingu og svæðaskipulagi tók hann við framkvæmdastjórn hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga 1976 og gegndi því starfi til 2004. Þá var hann ráðinn skipulagsfulltrúi Skógræktar ríkisins með aðsetur á Akureyri. Hann er nú að ljúka 50 ára starfsferli við skógrækt. Helstu verkefni hans hafa tengst uppbyggingu og rekstri útivistarskógar í Kjarnaskógi við Akureyri og uppbyggingu og rekstri gróðrarstöðvar í Kjarna frá 1976-2004.

Hallgrímur hefur fyrir hönd Skógræktarinnar og Skipulagsstofnunar tekið saman og ritstýrt leiðbeiningariti um skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, auk annarra skrifa um skógrækt. Hann kenndi hönnun og ræktun útivistarskóga við umhverfisdeild Lbhí á Hvanneyri um árabil.

Hallgrímur starfaði í skátahreyfingunni og var einn af stofnendum Hjálparsveitar skáta á Akureyri. Hann tók þátt í starfsemi Skautafélags Akureyrar, keppti í hraðhlaupi á skautum meðan sú íþrótt var stunduð þar og sat í stjórn Skautafélags Akureyrar þegar unnið var að uppbyggingu vélfrysts skautasvæðis á Akureyri.

„Skautaíþróttin var mjög vinsæl hér áður fyrr. Við systkinin og aðrir krakkar í Innbænum vorum alltaf á skautum þegar færi gafst og fram fór skipulögð keppni í skautahlaupum. Nú hefur slík keppni ekki farið fram frá því um 1980. Þessi íþróttagrein er háð sérstökum náttúruskilyrðum sem hafa líklega versnað hér á landi með örlítilli vetrarhlýnun. Hins vegar er íshokkí í uppgangi hér á Akureyri og í Reykjavík.

Um áhugamálin má svo geta þess að við fjölskyldan gerðum upp gamalt hús á mínum æskuslóðum, Aðalstræti 52. Húsið var allt endurgert í upphaflegri mynd og það tók um 20 ár en það sómir sér nú vel á upprunalegum stað, við hlíð Nonnahúss. Þar búum við enn og ræktum kartöflur eins og gert var í gamla daga.“


Fjölskylda

Hallgrímur kvæntist 26.5. 1968 Kristínu Aðalsteinsdóttur, f. 8.5.1946, prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri. Kristín er dóttir Aðalsteins Gíslasonar kennara og Áslaugar Jónsdóttur frá Svínadal við Jökulsárgljúfur.

Börn Hallgríms og Kristínar eru: 1) Berglind Hallgrímsdóttir, f. 2.10.1968, framkvæmdastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, búsett í Garðabæ og á hún eina dóttur, Maríu Kristveigu; 2) Aðalsteinn Hallgrímsson, f. 25.11. 1976, upplýsingatæknifræðingur sem starfar við eftirvinnslu kvikmynda, búsettur í Kaupmannahöfn en kona hans er Gunnur Ósk Friðriksdóttur þroskaþjálfi og eru barnabörnin Tryggvi Þór og Eyvindur Orri; 3) Tryggvi Hallgrímsson f. 26.5. 1979, félagsfræðingur á Jafnréttisstofu, búsettur á Akureyri en kona hans er Þóra Pétursdóttir fornleifafræðingur og eiga þau eina dóttur, Kötlu.

Systkini Hallgríms eru: Edda Indriðadóttir, f. 24.10. 1936, fyrrv. skrifstofukona á Akureyri og Íslandsmeistari í skautahlaupi kvenna; Þórhallur Indriðason, f. 24.12. 1938, d. 6.6. 1941, og Örn Indriðason, f. 24.6. 1943, húsasmíðameistari á Akureyri og Íslandsmeistari í skautahlaupi karla.

Foreldrar Hallgríms voru Indriði Jakobsson, f. 1.7. 1909, d. 4.11. 1993, vélstjóri sem sigldi með fisk til Bretlands á stríðsárunum og síðar vélaviðgerðarmaður á bílaverkstæðinu Þórshamri, og k.h., Kristveig Hallgrímsdóttir, f. 20.6. 1911, d. 22.5.1977, húsfreyja á Akureyri.

Vefur Morgunblaðsins