Eikur af þýskum uppruna gróðursettar á afmælishátíð Mógilsár á sunnudag

Undirbúningur fyrir skógardaginn sem hald­inn verður á sunnudag í tilefni hálfrar aldar afmælis Rannsóknastöðvar skóg­ræktar Mógilsá gengur vel. Sá sögulegi atburður verður á hátíðinni að gróðursett verður í fyrsta eikarskóginn á Íslandi. Eikur úr 600 metra hæð í fjöllum Hessen í Þýska­landi báru fræin sem eikurnar á Mógilsá eru sprottnar upp úr. Fyrstu eikurnar voru gróður­settar í fyrra, þrífast allar vel og eru í góðum vexti.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag. Greinin er á þessa leið:

Tvær ferðatöskur fullar af eikarfræjum eða akörnum úr 300 ára gömlum þýskum skógi á fylkjamörkum Neðra-Saxlands og Hessen eru sá banki sem eikarskógur á Mógilsá á að byggja á. Fræin komu til landsins í farteski Aðalsteins Sigurgeirssonar, skógfræðings og fagmálastjóra Skógræktarinnar, fyrir þremur árum og eru nú orðin að myndarlegum plöntum í pottum sem verða gróðursettar í sérvalinn reit á Mógilsá á sunnudag. Þann dag verður haldið upp á 50 ára afmæli Rannsóknarstöðvar skógræktar og verður ýmislegt þá um að vera á Mógilsá.

Lífseigar og ekki kröfuharðar

Fyrirhugað er að gróðursetja 50 eikarplöntur og í framtíðinni gæti fyrsti íslenski eikarskógurinn sett svip á landið við rætur Esju. Aðalsteinn segist sannfærður um að plönturnar eigi að geta þrifist við íslenskar aðstæður. Þær séu lífseigar, ekki kröfuharðar á jarðveg og með hækkandi hitastigi allan ársins hring hafi vaxtartími lengst. Nú sé t.d. síður hætta á að frysti strax um miðjan september eins og gerði stundum i gamla daga. „Í fyrra gerðum við tilraunir með þennan efnivið og gróðursettum tré af sama kvæmi hér og hvar í Esjuhlíðum, með aðstoð sjálfboðaliðasamtakanna SEEDS. Meira að segja fóru sum trén niður uppi á grjótholti og melum, en plönturnar komu algjörlega óskemmdar undan vetri. Í sumar hafa þær vaxið ágætlega. Sumar plönturnar sem gróðursettar voru í fyrra hafa vaxið um 40-50 sentímetra,“ segir Aðalsteinn.

Forvitnilegar tilraunir

Hann dvaldi veturinn 2013-14 í Göttingen í Þýskalandi og fékk þá beiðni frá Trjáræktarklúbbnum um að safna eikarfræjum. Klúbburinn er áhugamannahópur, nokkurs konar blendingur af garðyrkjufélagi og skógræktarfélagi, að sögn Aðalsteins, og fæst m.a. við ýmsar forvitnilegar tilraunir með trjátegundir sem ekki hafa sést á Íslandi áður. „Það var meira en sjálfsagt að safna þessum fræjum og ég fór með félögum mínum í 300 ára gamlan eikarskóg í fjöllunum suðvestan við Göttingen og þar söfnuðum við fræjum í 600 metra hæð og fylltum tvær ferðatöskur. Skemmst er frá því að segja að hvert einasta fræ eða akarn spíraði og varð að tré. Í raun voru þetta alltof mörg tré fyrir klúbbinn og það varð úr að ég tók að mér hluta græðlinganna með það í huga að geta gróðursett á afmælisárinu 2017. Núna er komið að því og við höfum fundið þeim góðan stað í rjóðri á ás sem snýr sunnan í móti,“ segir Aðalsteinn.

Hagamúsin getur verið skæð

Akörnin voru strax sett í mold þegar þau bárust til landsins og geymd þar í músfríu gróðurhúsi, en íslenska hagamúsin er upphaflega skógarmús, að sögn Aðalsteins, og meginfæða hennar þar er trjáfræ. „Hún er skæð ef hún kemst í akörn og étur þau upp á engri stundu.“ „Þá voru plönturnar smitaðar með svepprótarsmiti fyrir eikur, en það er forsendan fyrir því að trjátegund geti þrifist í nýju landi að hún hafi aðgangað nauðsynlegum sambýlisörverum.“

Gróðursett í Hjartanu

Aðalsteinn segir að athöfnin á sunnudag verði á ýmsan hátt táknræn. Í fyrsta lagi hafi rannsóknastöðin alla tíð átt í miklu alþjóðlegusamstarfi og eikarskógurinn sé vissulega táknmynd þess. „Önnur táknmynd sem er ekki síð-ur merkileg er helgin sem var á eik víða í Evrópu, sérstaklega í löndum Kelta. Norrænir menn tilbáðu aska og reyni en Keltarnir tilbáðu eikur. Þeirra hof eða musteri voru í raun bara eikarlundir og það vill svo skemmtilega til að staðurinn þar semvið ætlum að gróðursetja eikurnar ber örnefnið Hjartað, sem er sennilega fornt örnefni. Það veit hins vegar enginn hvers vegna þessi melhóll ber þetta nafn,“ segir Aðalsteinn.