Í dag er alþjóðlegur dagur umhverfisins. Evrópska ráðherraráðið um verndun skóga, Forest Europe, bendir á það í tilefni dagsins að útilokað sé að halda slíkan dag án þess að skógar séu teknir með í reikninginn.
Í tengslum við fund um skóga og sjálfbæra þróun sem haldinn verður í Sviss 16. júní hefur verið gefinn út dreifimiði þar sem bent er á hversu skógar og skógarafurðir eru snar þáttur í lífi mannanna. Á miðanum er meðal annars spurt hvort lífið á jörðinni gæti þrifist án skóga.
Morgunblaðið segir frá því í miðvikudagsblaði sínu að stöðugur straumur fólks hafi verið um Grettisgötu í Reykjavík í gær til að skoða 106 ára gamla silfurreyninn sem staðið hefur til að fjarlægja vegna byggingaframkvæmda. Um 2.000 manns hafi skrifað undir mótmæli gegn framkvæmdinni. Þetta bendir til þess að margt fólk sjái verðmæti í myndarlegum trjám í þéttbýli.
Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson kynna nýútkomna bók sína Heilbrigði trjágróðurs miðvikudaginn 4. júní frá kl. 17-19. Kynningin verður haldin í sal Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1, Reykjavík (Ármúlamegin). Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar.
Í framhaldi af heimsókn danskra útinámssérfræðinga til Íslands haustið 2012 vaknaði áhugi á því að starfa saman að námskeiðshaldi um útinám. Um miðjan maí hélt Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri Lesið í skóginn þriggja daga námskeið fyrir starfandi kennara og leiðbeinendur í Kaupmannahöfn.