Lesið í skóginn í útrás til Kaupmannahafnar

Í framhaldi af heimsókn danskra útinámssérfræðinga til Íslands haustið 2012 vaknaði áhugi á því að starfa saman að námskeiðshaldi um útinám, bæði að setja upp námskeið í Danmörku með íslenskum áherslum og síðan hér á landi með dönskum áherslum.

Metropol-kennararháskólinn í Kaupmannahöfn reið á vaðið og bauð Ólafi Oddssyni, verkefnisstjóra LÍS, að kenna á  þriggja daga námskeiði fyrir starfandi kennara og leiðbeinendur í Kaupmannahöfn nú um miðjan maí.Námskeiðið var blanda af fræðilegri umfjöllun og verklegum æfingum. Laura Lundager Jensen og Karen Vesterager, báðar kennarar við Metropol-kennaraháskólann í Kaupmannahöfn, sáu um uppsetningu þess og framkvæmd. Danska mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur samþykkt og gefið út fyrirmæli um aukið útinám í dönskum skólum og var námskeiðið liður í því.

Fyrsta námskeiðsdaginn kynnti Ólafur helstu áherslur og leiðir í skógartengdu útinámi á Íslandi og sagði frá 10 ára reynslu sinni af því starfi. Hann dró fram sérstaklega þá þætti sem mikilvægir eru til að útinám verði árangursríkt og fjölbreytt. Eftir hádegi var farið í stórmarkað og velt fyrir sér hvernig mætti finna útinámsverkefni þar með góðum árangri. Síðan fór sami hópur í Naturparken í Fredriksberg þar sem stjórnendur og leiðbeinendur garðsins bættust í tálguhóp Ólafs sem kynnti „öruggu hnífsbrögðin“ og ferskar viðarnytjar eins og þær hafa verið kenndar á Íslandi sl. 10 ár. Í ljós kom að Danir kenna ekki tálgunina eins og við og voru þeir afar hrifnir af bæði kennsluaðferðunum og tálgutækninni. Munu þeir væntanlega biðja um frekari kennslu í þeim efnum í framhaldinu. 

Ólafur Oddsson ásamt Lauru Lundager og þátttakendum á námskeiðinu


Á öðrum degi var farið í kirkjugarðinn í Fredriksberg og unnið með app-tæknina og nýtingu hennar í útinámsskólastarfi. Á þriðja degi var dvalið í Naturparken í Vestur-Amager þar sem upplifunaraðferðir tengdar sköpun voru æfðar og endað með brauðbakstri þar sem pitsu-snúbrauð Ólafs var kynnt til sögunnar en Danirnir höfðu kynnst því í Íslandsheimsókninni. Ekki liggur fyrir endanlegt mat þátttakenda á námskeiðinu en það virtist falla í kramið hjá þeim. Þáttur Íslands í því var almennt kallaður „inspirasjon fra Island“ á dönskunni. Ólafur var ánægður með þann heiður að fá tækifæri til að miðla reynslu sinni og sér fyrir sér að Danirnir komi hingað og endurgjaldi samstarfið, hugsanlega í haust ef fjármagn fæst til þess.




Karen t.v. og Laura áttu heiðurinn af uppsetningu og framkvæmd
námskeiðsins og sjást hér ræða málin í Naturparken í Vestur-Amager,
rétt fyrir utan Kastrup-flugvöllinn.
  




Upplifunaræfingarnar voru gerðar með hliðsjón af aðferðum Josephs
Cornells þar sem farið var í blindingjaleikinn í skemmtilegu skógar-
umhverfi og því næst leitað að leiðum til að tjá tilfinningar sínar og
upplifanir á skapandi hátt í ljóðum, texta eða myndum.




Hráefnið í Pitsu-snúbrauðin var ríkulegt og bökunaruppskeran og bragðið
eftir því. Hver þátttakandi valdi sitt álegg og bragðefni og var hefðbundið
pitsuagóðgæti í boði og einnig sæta útgáfan með eplum, súkkulaði,
möndlum, rúsínum og rabbarbara. Danirnir voru duglegir við að finna
jurtir í nágrenninu til að bragðbæta brauðið.




Þau sem tóku þátt í tálguninni í Naturparken í Fredriksberg nutu þess
fram í fingurgóma að kynna sér LÍS- tálgutæknina og kennsluaðferðirnar 
og sáu sóknarfæri í þeim í framtíðinni.