Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, fagnar því hvað lúpínan hefur dreift sér mikið á höfuðborgarsvæðinu. Hún hafi stöðvað moldrok af foksvæðum í grennd við borgina og nú sé hún að hörfa úr Heiðmörk. Í staðinn taki við gras- og blómlendi og skógur. Stöð 2 fjallaði um þetta í sjónvarpsfrétt um liðna helgi.
Eiga villt jarðarber í íslenskri náttúru uppruna sinn að rekja til Noregs? og hvar þá í Noregi? Nemi við Landbúnaðarháskóla Íslands vinnur að meistaraverkefni um þetta. Meðal annars er biðlað til almennings í Noregi að tína þroskuð ber, þurrka og senda til Íslands.
Hinn árlegi viðburður, Skógardagurinn mikli, verður haldinn í tíunda sinn laugardaginn 21. júní. Dagskráin er margbreytileg að venju. Hin fornfræga hljómsveit Dúkkulísurnar stígur á svið en nú eru 30 ár liðin frá því að sveitin stóð á sviði í Hallormsstaðaskógi síðast. Svo er spurning hvort skógarhöggsmenn á Austurlandi ná Íslandsmeistaratitlinum í skógarhöggi aftur austur
Grisjun með skógarhöggsvél er hafin í skóginum á Miðhálsstöðum í Öxnadal. Mikið er um kræklótt og margstofna lerki- og furutré í skóginum og gjarnan sverar hliðargreinar á furunni sem vélin nær ekki að skera af í einni atrennu. Líklegt er að fara þurfi fyrir vélinni með keðjusög til að ná upp góðum afköstum.
Vart hefur orðið mikils skógardauða í óbyggðum dal í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu. Dalurinn heitir Skyndidalur og er neðan Lambatungnajökuls austast í Vatnajökli. Birki er ekki horfið af svæðinu en nauðsynlegt er að huga að verndun fornra skógarleifa.