Rætt við Helga Gíslason hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í fréttum Stöðvar 2

Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, fagnar því hvað lúpínan hefur dreift sér mikið á höfuðborgarsvæðinu. Hún hafi stöðvað moldrok af foksvæðum í grennd við borgina og nú sé hún að hörfa úr Heiðmörk. Í staðinn taki við gras- og blómlendi og skógur. Stöð 2 fjallaði um þetta í sjónvarpsfrétt um liðna helgi.

Í fréttinni var sagt frá alaskalúpínunni sem værir 30 til 90 sentímetra há fjölær jurt af ertublómaætt með blá eða fjólublá blóm. Hún hefði lengi verið notuð til landgræðslu hér á landi með góðum árangri. Í viðtali við Magnús Hlyn Hreiðarsson fréttamann sagði Helgi að öskurykið sem höfuðborgarbúar hafa fengið að finna fyrir undanfarin ár væri ágætis upprifjun á því hvernig hefði verið fyrir um 35 árum síðan þegar moldrok barst af uppblásturssvæðum í grennd við borgina. Lúpínan hefði náð að stöðva það algjörlega. Þá voru sýndar myndir af svæðum í Heiðmörk sem áður voru þakin lúpínu en eru nú vaxin grasi, blómgróðri og trjám. Þetta væri til merkis um það að lúpínan hörfaði þegar hún hefði rækt hlutverk sitt, að byggja upp frjósaman jarðveg.

Smellið hér til að sjá fréttina.