Forvitnilegt meistaraverkefni hjá LBHÍ

Eiga villt jarðarber í íslenskri náttúru uppruna sinn að rekja til Noregs? og hvar þá í Noregi? Nemi við Landbúnaðarháskóla Íslands vinnur að meistaraverkefni um erfðafræði villtra jarðarberja. Nú er biðlað til almennings í Noregi að tína þroskuð ber, þurrka og senda til Íslands.

Seint verður nákvæmlega sagt til um hvaðan landnámsfólk var sem settist að á Íslandi fyrir meira en þúsund árum. Erfðatæknin hefur þó komið meir og meir að gagni við þær athuganir á síðari árum og nútíma erfðatækni gefur ýmsa möguleika. Ekki er útilokað að rannsóknir á plöntutegundum sem líklegt er að menn hafi borið með sér snemma geti lagt til upplýsingar eða vísbendingar í þessari stóru gátu. Hrannar Smári Hilmarsson vinnur nú að meistaraverkefni við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hann rannsakar erfðaeiginleika og uppruna villtu íslensku jarðarberjanna, Fragaria vesca. Leiðbeinandi hans í verkefninu er Jón Hallsteinn Hallsson, erfðafræðingur dósent við auðlindadeild Landbúnaðarháskólans.

Meginmarkmið rannsóknarinnar tengist þó ekki uppruna Íslendinga heldur fyrst og fremst uppruna villtra jarðarberja á Íslandi. Þessar rannsóknir munu líka gefa, auk margs annars, nytsamar upplýsingar um erfðabreytileika í villtum jarðarberjum á mismunandi svæðum í Noregi. Meðal annars gætu þar komið í ljós mikilvægir eiginleikar mismunandi kvæma sem gagn gæti verið að í bæði ræktun og áframhaldandi rannsóknum.

Fragaria_vesca_close-up_4_croppedVantar sýni frá Noregi

Til að þessi rannsókn geti farið fram þarf að safna erfðaefni úr villtum jarðarberjum vítt og breitt um Noreg og nú í byrjun júní var sagt frá rannsókninni á vef norsku rannsóknarstofnunarinnar Skog og landskap. Þetta er stofnun sem rannsakar og miðlar upplýsingum um skóg og aðrar auðlindir landsvæða. Innan hennar er starfrækt sérstök erfðavísindadeild, Genressurssenteret.

Villt jarðarber vaxa mjög víða, bæði austan hafs og vestan, finnast á stórum svæðum í Ameríku og Evrópu austur til Rússlands. Þau finnast á Íslandi en ekki á nágrannaeyjum eins og Grænlandi, Færeyjum eða Svalbarða. Hér finnast þau á afmörkuðum stöðum víða um land, einkum í þurrum, sólríkum grasbrekkum og í skóglendi. Algengust eru jarðarberin þar sem hlýjast er, um sunnan- og vestanvert landið en einnig víða í innsveitum frá Skagafirði, Eyjafirði, Suður-Þingeyjarsýslu, á Fljótsdalshéraði og stöku stöðum annars staðar, til dæmis í skóginum  í Ásbyrgi.

Hrannar Smári Hilmarsson lauk nú í júní BS-prófi frá búvísindadeild Landbúnaðarháskólans og rannsakaði í lokaverkefni sínu erfðafræðilegan breytileika villtra jarðarberja á Íslandi og útlitsmun á tegundinni eftir vaxtarstöðum. Rannsóknin leiddi í ljós nokkurn mun, bæði erfðafræðilegan og í útliti og svipgerð, og bendir til að flokka megi íslensk jarðarber í tvær undirgerðir. Samkvæmt erfðarannsóknum á  íslensku jarðarberjunum raðast þau upp á skyldleikatréð nær þeim evrópsku en þeim amerísku. Raðgreining á erfðamengi grænukorna bendir samt sem áður til skyldleika við amerísku undirtegundina bracteata.

1024px-Fragaria_vesca_Jahodnik_obecny_1Spurningum er því enn ósvarað. Nú hefur verið safnað sýnum víða að af útbreiðslusvæðinu bæði vestan og austan Atlantsála en þó vantar enn sýni frá Noregi. Erfðavísindadeildin hjá Skog og landskap hefur tekið að sér að aðstoða við að safna sýnum þar í landi og biðlar nú til almennings að tína vel þroskuð villt jarðarber, það sem Norðmenn kalla viltvoksende markjordbær, þurrka þau vel og senda í pósti með upplýsingum um hvar þau voru tínd.

Erfðamengi jarðarberja er eitt fárra erfðamengja plantna sem hafa verið skráð að fullu. Allt DNA tegundarinnar hefur með öðrum orðum verið kortlagt. Þetta gerir kleift að bera saman DNA úr jarðarberjaplöntum frá mismunandi stöðum í heiminum og meta skyldleika þeirra. Sömuleiðis er hægt að tengja erfðaupplýsingarnar við ýmsa eiginleika plantnanna.

Fragaria_vesca_5048Í allt að 1.250 metra hæð

Breytileiki í svipgerð, með öðrum orðum munur á vaxtarlagi og sýnilegum útlitseinkennum, er meðal þess sem Hrannar rannsakar áfram í meistaraverkefni sínu og heldur til haga ásamt erfðaupplýsingum sýnanna. Draumurinn er að finna út hvaðan jarðarberin sem vaxa á Íslandi eru. Í Noregi vaxa þau nánast um allt landið, alveg norður til Finnmerkur. Þau hafa fundist í allt að 1.250 metra hæð yfir sjó þar í landi. Helstu vaxtarstaðirnir eru opin, frekar þurrlend svæði, til dæmis á ýmiss konar jaðarsvæðum, vegköntum og við kletta og þess háttar en líka í grennd við mannabústaði.

Þurrka og senda fimm ber

Á vef Skog og landskap eru allir lesendur sem vita um villt jarðarber í nágrenni sínu beðnir að safna þroskuðum berjum. Í þeim séu fræ sem geti spírað og þau verði notuð á Íslandi til að rækta upp plöntur svo hægt sé að gera á þeim rannsóknir. Fram kemur að ekki þurfi að senda meira en fimm ber en þau þarf að þurrka vel svo að hægt sé að senda þau í pósti áfallalaust.

Í fyllingu tímans kunna menn að sjá ástæðu til að safna meira fræi til að geyma úrval af tegundinni hjá norræna genabankanum NordGen. Þar eru varðveitt fræ af tegundum og arfgerðum plantna frá öllum Norðurlöndunum, bæði villtra plantna og ræktaðra. Niðurstöður rannsókna Hrannars Smára og félaga gefa hugmynd um hversu mörg kvæmi af villtum jarðarberjum er ástæða til að halda til haga svo sem mest sé varðveitt af erfðabreytileika tegundarinnar.

Upplýsingar um hvert senda skal sýnin er að finna á vef Skog og landskap og skyldu einhverjir lesendur vefsins skogur.is vita um villt jarðarber í Noregi sem þeir gætu safnað þroskuðum berjum af seinna í sumar má finna þessar upplýsingar með því að smella hér.

Mynd af jarðarberjaplöntu úr bókinni Flora von Deutschland, Österreich und der Schweiz eftir Dr. Otto Wilhelm Thomé prófessor, útg. 1885

 

 

Nánari upplýsingar:

Texti: Pétur Halldórsson
uppfært 11. ágúst 2021