Þurrir og berir melar í landi Háls í Fnjóskadal hafa tekið stakkaskiptum á fáum árum og eru nú óðum að hverfa í skóg. Um 130 þúsund plöntur hafa verið gróðursettar, að mestu leyti í sjálfboðavinnu.
Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið fluttust formlega í nýtt húsnæði í gær, Halldórsfjós svokallað á Hvanneyri. Timbur í innréttingar var sótt í gjöfula skóga Skorradals. Afgreiðsluborð, sýningarborð og ræðupúlt er meðal þess sem smíðað var úr Skorradalstimbri.
Stærsta skógvísindaráðstefna heims verður haldin í borginni Salt Lake City í Utah dagana 5.-11. október. Þar hittast meira en 3.500 vísindamenn og sérfræðingar. Þetta er tuttugasta og fjórða heimsráðstefna IUFRO, alþjóðlegs sambands rannsóknarstofnana í skógvísindum. Á ráðstefnunni verður rætt um mikilvægi skóga sem tækis til að bregðast við ýmsum vaxandi vandamálum sem samfélag manna á jörðinni stendur nú frammi fyrir.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið við grisjun með grisjunarvél í greniskógi á Stálpastöðum í Skorradal. Afraksturinn verða rúmlega eitt þúsund rúmmetrar af trjáviði sem seldir verða Elkem á Grundartanga nema sverustu bolirnir sem verða flettir í borðvið. Viðnum er ekið út úr skóginum með dráttarvélum sem er ekki heiglum hent eins og sést í myndbandi sem fylgir þessari frétt.
Fulltrúar ríkisstjórna yfir 30 landa, þrjátíu fyrirtækja og 60 samtaka, meðal annars samtaka frumbyggja, hafa lýst stuðningi við New York yfirlýsinguna um skóga sem gerð var 23. september á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna. Með yfirlýsingunni var mörkuð sú stefna að draga úr skógareyðingu um helming fyrir árið 2020 og stöðva hana alveg fyrir 2030.