Skógræktarfélag Íslands og sjö aðildarfélög þess í Vestfirðingafjórðungi leggjast ekki gegn vegagerð um Teigsskóg í Þorskafirði. Félögin sendu frá sér ályktun þessa efnis í dag og segja engin náttúrufræðileg rök hníga gegn þessum nauðsynlegu vegabótum í landshlutanum.
Skógarbændur á Austurlandi kanna nú möguleika á stofnun afurðastöðvar sem annast myndi sölu á ýmsum nytjavið sem fellur til í fjórðungnum. „Menn hafa legið yfir þessu að undanförnu. Eru nú að fara yfir tölur og reikna sig áfram. Það er ljóst að koma þarf vinnslu og sölu skógarafurða í farveg á næstu árum,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi í samtali við Morgunblaðið í dag.
Þýskur grafískur hönnuður hefur þróað aðferð til að túlka mynstur árhringja í píanótónum. Mismunandi vaxtarhraði trjáa og vaxtarlag gefur mismunandi tónlist. Vægast sagt sérhæfð og nýstárleg skógarafurð!
Landvernd efnir til hádegisfyrirlestrar um þróun göngustíga föstudaginn 3.október kl. 12.15 í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands. Bob Aitken, skoskur landfræðingur og ráðgjafi í umhverfismálum á útivistarsvæðum, veltir upp leiðum til að takast á við stígamál á Íslandi með auknum ferðamannastraumi.