Í fyrsta sinn skýr vilji hjá löndum heims til að stöðva skógareyðingu

Fulltrúar ríkisstjórna yfir 30 landa, þrjátíu fyrirtækja og 60 samtaka, meðal annars samtaka frumbyggja, hafa lýst stuðningi við New York yfirlýsinguna um skóga sem gerð var 23. september á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna. Litið er svo á að skógar séu eitt mikilhæfasta vopnið sem hægt er að grípa til í baráttunni við loftslagbreytingar. Með yfirlýsingunni var mörkuð sú stefna að draga úr skógareyðingu um helming fyrir árið 2020 og stöðva hana alveg fyrir 2030. 

Með New York yfirlýsingunni er einnig gert ráð fyrir að endurhæfa skóga og ræktarland á meira en 350 milljónum hektara lands, svæði sem er stærra en Indland. Ef þessi markmið nást myndi það samanlagt jafngilda samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um milli 4,5 og 8,8 milljarða tonna af koltvísýringi á hverju ári þegar komið væri fram til um 2030. Þetta magn samsvarar útblæstri alls bílaflota jarðarinnar sem nú er um einn milljarður bíla.

Í framkvæmdaáætlun sem fylgir yfirlýsingunni er kveðið á um nokkrar sérstakar aðgerðir sem ráðast skuli í til að leiðbeina yfirvöldum í löndum heimsins, fyrirtækjum og samtökum svo ná megi þessum settu markmiðum.

Jafnframt útlistuðu margir þeirra sem aðild eiga að yfirlýsingunni alls kyns aðgerðir og samstarfsverkefni sem ráðast á í til sannindamerkis um að þeim væri alvara í þessum efnum. Ef litið er á Evrópu til dæmis má nefna fjármögnun mjög stórra bakhjarla á verkefnum sem eiga að vinna gegn skógareyðingu og skógarvernd. Einnig skuldbundu sig nokkur af þeim ríkjum Evrópu sem mest flytja inn af vörum til að þróa innkaupastefnu fyrir varning og þjónustu sem einna helst er íþyngjandi fyrir skóglendi heimsins svo sem sojabaunir, pálmaolíu, nautakjöt og timbur.

Jafnvel þótt þetta sé ekki lagalega bindandi pólitísk yfirlýsing er þetta í fyrsta sinn sem leiðtogar ríkja heimsins hafa komið sér saman um sameiginlega tímasetta áætlun um að stöðva eyðingu náttúrlegs skóglendis.

New York yfirlýsinguna um skóga og aðgerðaáætlunina sem fylgir má nálgast hér.

Texti/íslenskun og mynd: Pétur Halldórsson