Á sjómannadaginn 4. maí verður til sýnis í Grindavík nýr áttæringur sem líklega er fyrsta skipið af sama toga sem smíðað er á Íslandi frá árinu 1910. Í máttarviði skipsins var notað greni úr þjóðskóginum í Þjórsárdal og úr Heiðmörk.
Framleiðsla á viðarperlum úr íslensku lerki án íblöndunarefna gengur vel hjá Tandrabretti á Eskifirði. Nýlega var sóttur grisjunarviður úr þjóðskóginum á Höfða á Völlum til framleiðslunnar. Viðarperlur henta sem undirburður fyrir skepnur en einnig sem orkugjafi og nú eru nokkrar viðarkyndistöðvar komnar í notkun á Héraði sem nýta þessa innlendu orku.
Birkifræ sem börn í 1.-4. bekk Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit söfnuðu á liðnu hausti eru komin í jörð á góðum stað. Þannig hafa börnin lagt lið því markmiði íslensku þjóðarinnar að stækka þekju íslenskra birkiskóga úr 1,5 prósentum landsins í fimm prósent.
Að minnsta kosti 250 árhringir hafa verið taldir í eini á Hólasandi norðan Mývatnssveitar. Einirinn sá er þar með elsta „tré“ sem vitað er um að vaxi á Íslandi. Mikla stækkun þarf til að telja megi árhringi í grönnum stofni íslenska einisins. Helsti sérfræðingur landsins í áhringjafræðum starfar hjá Skógræktinni og er nýkominn af ráðstefnu evrópskra árhringjafræðinga í Portúgal.
Jafnvel þótt á Norðurlöndunum sé einungis að finna 1,6 prósent af skógarþekju heimsins eru þetta mjög mikilvægir skógar fyrir heiminn allan. Af öllum timburvörum og pappír á heimsmarkaðnum koma koma sextán prósent frá Svíþjóð og Finnlandi og fjórtán prósent af allri kvoðu til pappírsgerðar. Þetta er meðal staðreynda sem finna má í hagtölum norrænna skóga sem nýkomnar eru út í aukinni mynd frá fyrstu útgáfunni 2020.