Mikil þurrkatíð hefur verið að undanförnu á Norður- og Austurlandi og því er ástæða til að vara fólk sérstaklega við því að fara með eld í skógum og öðru gróðurlendi. Kveikt var í tré í Hallormsstaðaskógi í síðustu viku en til allrar hamingju breiddist eldurinn ekki út.
Á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir sumarleyfi, föstudaginn 9. júní, var samþykkt frumvarp um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í nýja stofnun sem á að heita Land og skógur. Sameiningin gengur í gildi um áramótin.
Skógrækt og sauðfjárrækt fer vel saman að mati Jóhanns F Þórhallssonar, sauðfjár- og skógarbónda í Brekkugerði í Fljótsdal. Þar sem aðstæður eru ámóta og í Fljótsdal segir hann hægt að byrja að beita lerkiskóg um tíu ára gamlan. Mikilvægt sé að grisja skóginn rétt og ljúka fyrstu grisjun fyrir fimmtán ára aldur skógarins. Skógurinn nýtist lambfénu vel til skjóls á vorin og svo aftur á haustin þegar það kemur af fjalli.
Alaskaösp er nú skemmd víða á landinu en ástæðulaust er að hlaupa til og fella slík tré því allar líkur eru á því að flest þeirra muni ná sér, að einhverju leyti í sumar og svo að fullu næsta sumar. Sunnanlands eru skemmdirnar vegna kulda og særoks en nyrðra er líklega um að kenna næturfrostum sem urðu snemma vors þegar tilteknir asparklónar voru byrjaðir að laufgast.
Vel er hægt að fjölga lerkiblendingnum Hrymi með græðlingum ef fyrir hendi er góð þekking, ekki síst á ræktun og umhirðu móðurplantna. Í tilraunum sem sagt er frá í nýrri grein í Riti Mógilsár náðist góð ræting bæði vetrargræðlinga og ótrénaðra sumargræðlinga. Áhugaverður möguleiki er að koma græðlingum til í míkróbökkum og notast við sjálfvirkan búnað við priklunina.