Græðlingar af Hrymi sem priklað var 30. maí 2022. Myndin er tekin 30. júlí 2022. Penninn á myndinni …
Græðlingar af Hrymi sem priklað var 30. maí 2022. Myndin er tekin 30. júlí 2022. Penninn á myndinni er 15 sm langur. Ljósmynd: Rakel J. Jónsdóttir

Vel er hægt að fjölga lerkiblendingnum Hrymi með græðlingum ef fyrir hendi er góð þekking, ekki síst á ræktun og umhirðu móðurplantna. Í tilraunum sem sagt er frá í nýrri grein í Riti Mógilsár náðist góð ræting bæði vetrargræðlinga og ótrénaðra sumargræðlinga. Áhugaverður möguleiki er að koma græðlingum til í míkróbökkum og notast við sjálfvirkan búnað við priklunina.

Forsíða 49. tölublaðs Rits MógilsárFjallað er um þessar tilraunir í grein í nýútkomnu 49. tölublaði Rits Mógilsár með fyrirsögninni Ræktun græðlinga af Hrymi. Greinina ritar Rakel J. Jónsdóttir, sérfræðingur og doktorsnemi á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Í inngangi kemur fram að þar sem frærækt anni ekki eftirspurn eftir plöntum af lerkiblendingnum ‘Hrymi’ (Larix decidua x sukaczewii) hafi verið kannað í þessu verkefni hvort mögulegt væri að fjölga honum með græðlingum á mismunandi tím­um árs.

Miðað við það ræktunarumhverfi sem notað var náðist 60,7% til 67,1% ræting vetrargræðlinga. Trénað sumargræðlingaefni sem hafði aðeins hliðar­brum rætti sig síður (18,8% til 65%) en það sem var minna trénað og klippt af toppsprota eða hliðar­grein með enda­brumi (78,6% til 100%). Helsta orsök affalla í græðlinga­ræktuninni var sveppsjúkdómurinn grámygla (Botrytis sp.)

Verkefnið leiddi í ljós að græðlingar af Hrymi þurfa að lágmarki 11 til 12 vikna ræktun svo viðunandi ræting náist. Hægt var að ræta 6-8 sm, 5-7 sm, 3-4 sm og 2-2,5 sm langa græðlinga sem teknir voru á mismunandi tíma. Með því að stytta ljós­lotu og lækka hita smám saman var mögulegt að fram­kalla dvala í græðlingum sem voru rættir síðsumars og þurfti að yfirvetra á kæli (2,5°C-3°C).

Af þeim þremur bakkagerðum sem prófaðar voru í verk­efninu reyndist ræktun í míkróbakka áhuga­verð­ust með tilliti til auðveldrar priklunar í fjölpotta­bakka eftir rætingu, hagkvæmnisjónarmiða og stutts fram­leiðslutíma á söluhæfum plöntum.

For­senda þess að græðlingaræktun nái að bera sig fjárhags­lega er góð þekking á ræktun og umhirðu móður­plantna við íslenskar aðstæður með tilliti til aldurs þeirra og fjölda framleiddra græðlinga. Áfram­haldandi rann­sóknir ættu því að beinast mestmegnis að þeim þætti, að mati greinarhöfundar.

Greinin er 23 blaðsíður að lengd með fjölda skýringarmynda og útdrætti á íslensku og ensku. Jafnframt er stuttur samantektarkafli sem greinir frá helstu niðurstöðum. Öll tölublöð Rits Mógilsár frá upphafi eru aðgengileg með rafrænum hætti á vef Skógræktarinnar og einnig eldri sambærileg rit sem komu út á Mógilsá allt frá árinu 1989.

Frétt: Pétur Halldórsson